Tilnefningar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2020 voru kynntar í Kiljuþætti Egils Helgasonar, miðvikudaginn 2. desember.
Íslensku bókmenntaverðlaunin 2020 verða afhent um mánaðarmótin janúar-febrúar á komandi ári af forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessyni. Formenn dómnefndanna þriggja, sem valið hafa tilnefningarnar, munu koma saman ásamt forsetaskipuðum formanni, Ingunni Ásdísardóttur og velja einn verðlaunahafa úr hverjum flokki. Verðlaunaupphæðin er ein milljón króna fyrir hvert verðlaunaverk. Félag íslenskra bókaútgefenda kostar verðlaunin.
Verðlaunin voru fyrst veitt árið 1989 og er ætlað að draga fram athyglisverðustu útgáfubækur hvers árs. Þetta er í 32. sinn sem tilnefnt er til verðlaunanna. Sambærileg verðlaun eru veitt af útgefendafélögum í Svíþjóð og Noregi. Sænsku verðlaunin eru jafn gömul þeim íslensku, voru stofnuð árið 1989, og bera nafnið Augustpriset (http://www.augustpriset.se/). Norsku verðlaunin heita Brageprisen (http://brageprisen.no/). Þau voru stofnuð árið 1992.
Eftirfarandi höfundar eru tilnefndir í flokki fræðibóka og rita almenns efnis:
Erla Hulda Halldórsdóttir, Kristín Svava Tómasdóttir, Ragnheiður Kristjánsdóttir og Þorgerður H. Þorvaldsdóttir
Konur sem kjósa - aldarsaga
Útgefandi: Sögufélag
Bókin er afrakstur mikilvægrar og vandaðrar fræðilegrar rannsóknar á jafnréttisbaráttunni á Íslandi í 100 ár, en einnig á stjórnmála- og menningarsögunni. Uppsetning bókarinnar er áhugaverð og hönnunin nýstárleg þar sem fjöldi ljósmynda, veggspjalda og úrklippa eru notaðar til að glæða söguna lífi.
Gísli Pálsson
Fuglinn sem gat ekki flogið
Útgefandi: Mál og menning
Aldauða dýrategunda hefur ekki verið gefinn mikill gaumur til þessa hér á landi. Því er mikill fengur að þessari bók, sem beinir sjónum okkar m.a. að útrýmingarhættu og margvíslegum umhverfisvanda sem við stöndum frammi fyrir. Geirfuglabækur tveggja breskra fræðimanna sem héldu í Íslandsleiðangur 1858 og höfundur hefur rannsakað í þaula varpa nýju ljósi á sögu og örlög síðustu geirfuglanna við strendur landsins.
Kjartan Ólafsson
Draumar og veruleiki - Um Kommúnistaflokkinn og Sósíalistaflokkinn
Útgefandi: Mál og menning
Verkið er yfirgripsmikið og varpar áhugaverðu ljósi á stjórnmála- og stéttasögu vinstri manna hér á landi á 20. öldinni af miklu innsæi og hreinskilni. Um er að ræða tímamótarit þar sem nýjar og áður óaðgengilegar heimildir eru nýttar.
Pétur H. Ármannsson
Guðjón Samúelsson húsameistari
Útgefandi: Hið íslenska bókmenntafélag
Vandað og löngu tímabært ritverk um fyrsta Íslendinginn sem lauk háskólaprófi í byggingarlist á síðustu öld. Líf Guðjóns Samúelssonar húsameistara var helgað starfi hans og list. Saga hans og ævistarfsins er vel og skilmerkilega rakin í bókinni. Höfundur byggir á víðtækum rannsóknum sínum og djúpum skilningi á viðfangsefninu. Fjölmargar myndir og uppdrættir prýða bókina.
Sumarliði R. Ísleifsson
Í fjarska norðursins : Ísland og Grænland – viðhorfasaga í þúsund ár
Útgefandi: Sögufélag
Höfundi tekst að færa lesendum efni rannsóknar sinnar á mjög aðgengilegan og skýran hátt, þar sem hann varpar ljósi á rúmlega 1000 ára viðhorfasögu gagnvart íbúum þessara eyja. Bókin er glæsilegt og eigulegt rit, fallega hönnuð og vel myndskreytt.
Dómnefnd skipuðu:
Einar Örn Stefánsson, formaður dómnefndar, Björn Pétursson og Jóhanna Kristín Jóhannesdóttir
Eftirfarandi höfundar eru tilnefndir í flokki barna- og ungmennabóka:
Arndís Þórarinsdóttir og Hulda Sigrún Bjarnadóttir
Blokkin á heimsenda
Útgefandi: Mál og menning
Frumleg og athyglisverð bók. Fyndin og áreynslulaus frásögn með snjöllum lausnum sem bera hugmyndaauðgi höfunda glöggt vitni. Mikilvægi samheldni og vináttu eru ákveðið meginstef í sögu sem deilir með sterkum hætti á neysluhyggju Vesturlanda. Loftslagsváin er alltumlykjandi en sterkum boðskapnum er aldrei þröngvað upp á lesandann heldur er hann borinn snyrtilega fram með húmor í aðalhlutverki.
Hildur Knútsdóttir
Skógurinn
Útgefandi: JPV útgáfa
Djúp og afar vel skrifuð spennusaga um úthugsaða ævintýraveröld sem höfundur hefur lagt mikla vinnu í að skapa og gera trúverðuga, með heillandi vangaveltum um vísindin og hið yfirnáttúrulega. Lesandinn er rækilega minntur á hvernig nútíma lifnaðarhættir gætu leitt mannkynið á glapstigu, án þess að boðskapurinn yfirtaki skemmtilega og oft æsispennandi atburðarás.
Kristín Björg Sigurvinsdóttir
Dulstafir - Dóttir hafsins
Útgefandi: Björt – Bókabeitan
Áhrifarík bók þar sem höfundur dregur upp ljóslifandi mynd af fullsköpuðum ævintýraheimi. Sorg og missi eru gerð falleg skil sem og leitinni að hugrekki og innri styrk. Frásögnin er örugg, lýsandi og afar myndræn en þó skilur höfundur eftir rými til túlkunar og lesturs á milli línanna. Framhaldsins verður beðið með eftirvæntingu.
Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir
Grísafjörður
Útgefandi: Salka
Hlý og afar skemmtileg saga, raunsæ en þó með heillandi ævintýrablæ. Saga um hversdagsleikann með öllum sínum áskorunum og fólkið sem skiptir okkur mestu máli, en líka vináttu úr óvæntri átt, hjálpsemi og það að engum er alls varnað. Vandaðar myndir höfundar bæta heilmiklu við söguna ásamt fallegum frágangi og sniðugum fylgihlutum.
Yrsa Sigurðardóttir
Herra Bóbó, Amelía og ættbrókin
Útgefandi: Veröld
Heilsteypt og drepfyndin bók þar sem einstakt hugmyndaflug fær að blómstra. Óhefðbundinn sögumaður nýtur sín afar vel í bráðsniðugum lýsingum höfundar á tilfinningalífi hans og sýn á heiminn. Skemmtileg ærslasaga með klassískan boðskap um gildi sannrar vináttu. Einfaldar en stórskemmtilegar myndir falla vel að textanum og gera söguna enn betri.
Dómnefnd skipuðu:
Hrund Þórsdóttir, formaður dómnefndar, Einar Eysteinsson og Katrín Lilja Jónsdóttir
Eftirfarandi höfundar eru tilnefndir í flokki skáldverka:
Arndís Þórarinsdóttir
Innræti
Útgefandi: Mál og menning
Í þessari fyrstu ljóðabók Arndísar Þórarinsdóttur er að finna leiftrandi lýsingar í meitluðum og fumlegum ljóðum sem skilja mikið eftir sig í huga lesandans að lestri loknum.
Auður Ava Ólafsdóttir
Dýralíf
Útgefandi: Benedikt bókaútgáfa
Heimspekilegar vangaveltur um lífið, dauðann og mannskepnuna sem dýrategund einkennir þessa sjöundu skáldsögu Auðar Övu Ólafsdóttur. Persónusköpunin í þessum fallega texta er bæði heillandi og eftirminnileg.
Elísabet Kristín Jökulsdóttir
Aprílsólarkuldi
Útgefandi: JPV útgáfa
Aprílsólarkuldi er tilfinningarík og ljóðræn frásögn um föðurmissi, ást, sorg og geðveiki. Næmni Elísabetar Jökulsdóttur sem sést hefur í ljóðum hennar skilar sér í vel í skáldsagnaforminu.
Jónas Reynir Gunnarsson
Dauði skógar
Útgefandi: JPV útgáfa
Jónas Reynir Gunnarsson tæpir á helstu málum samtímans í þessari þriðju skáldsögu sinni. Fjallað er á margræðan hátt um tengsl náttúru og manns, innri átök hans og hið óumflýjanlega í tilverunni.
Ólafur Jóhann Ólafsson
Snerting
Útgefandi: Veröld
Í Snertingu eftir Ólaf Jóhann Ólafsson er dregin upp sannfærandi mynd af samfélaginu og aðstæðum fólks af ólíkum uppruna. Nútíð og fortíð er listilega fléttað saman þannig að úr verður skáldsaga sem skiptir máli.
Dómnefnd skipuðu:
Jóhannes Ólafsson, formaður dómnefndar, Guðrún Lilja Magnúsdóttir og Hildur Ýr Ísberg