Afhending Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2013
Forseti Íslands, herra Ólafur Ragnar Grímsson, afhenti í dag, fimmtudaginn 30. janúar 2014, Íslensku bókmenntaverðlaunin 2013, við hátíðlega athöfn á Bessastöðum.
Í tilefni 125 ára afmælis Félags íslenskra bókaútgefenda og 25 ára afmælis Íslensku bókmenntaverðlaunanna voru þau nú veitt í fyrsta skipti í flokki barna- og unglingabóka. Þær höfðu áður fallið undir flokk fagurbókmennta. Verðlaunin skiptust því nú í þrjá flokka sem hér segir:
Barna- og unglingabækur:
Andri Snær Magnason: Tímakistan. Útgefandi: Mál og menning
Tímakistan er margslungið ævintýri sem teygir anga sína frá fjarlægustu fortíð til ókominna tíma. Bókin vefur saman tveimur aðskildum sögum, úr ólíkum tímum og heimum, af viðskiptum mannanna við hinar varasömu tímakistur en þeir sem leggjast inn í þær geta sneitt hjá gangi tímans. Önnur sagan gerist í fjarlægri fortíð og segir frá konunginum Dímon sem sigrað hafði heiminn og reyndi loks að sigra tímann með smíði tímakistu. Hin sagan gerist í einskonar samtíð þar sem fólk flýr óstöðugt efnahagsástand og hrun með því að bíða hörmungarnar af sér í tímakistunum sínum - með hörmulegum afleiðingum. Undir lok síðasta árs var tilkynnt að Tímakistan yrði framlag Íslands til Barna- og unglingabókaverðlauna Vestnorræna ráðsins fyrir árið 2014 en Andri hefur þegar fengið verðlaunin einu sinni fyrir Söguna af bláa hnettinum.
Fagurbókmenntir:
Sjón, Sigurjón B. Siguðrsson: Mánasteinn - drengurinn sem aldrei var til. Útgefandi: JPV útgáfa
Mánasteinn segir sögu ungs, samkynhneigðs drengs, Mána Steins, sem heldur til á jaðri samfélagsins í Reykjavík 1918. Árið var einstakt í sögu Íslands en eldgos í Kötlu lagði öskuský yfir landið, spænska veikin lagði þúsundir bæjarbúa í sóttarsæng og svipti hundruð lífinu og styrjöldin úti í heimi varpaði skugga sínum yfir heimsbyggðina. Mitt í þessu öllu saman lifir Máni Steinn í kvikmyndum og Ísland býr sig undir að verða fullvalda þjóð. Mánasteinn veitir innsýn í menningar- og sögulegan kima sem ekki hefur verið varpað ljósi á áður á Íslandi og hefur á þeim tveimur mánuðum sem liðnir eru frá útgáfu bókarinnar verið seld til fjölda landa, s.s. Bandaríkjanna og Þýskalands.
Fræðirit og bækur almenns efnis:
Guðbjörg Kristjánsdóttir: Íslenska teiknibókin. Útgefandi: Crymogea
Nú stendur yfir í Gerðarsafni nýstárleg sýning á handritum, þar sem hið dýrmæta handrit Teiknibókin er í forgrunni. Í tengslum við sýninguna gaf forlagið Crymogea út glæsilega bók Guðbjargar Kristjánsdóttur um handritið með vönduðum myndum og ítarlegri umfjöllun um þá fjóra listamenn sem lögðu hönd að Teiknibókinni.
Íslenska teiknibókin er einstæð meðal handrita í safni Árna Magnússonar. Teiknibókin inniheldur safn fyrirmynda sem listamenn fyrri alda nýttu sér, t.d. er þeir lýstu handrit eða máluðu altarismyndir. Hún er ein af fáum fyrirmyndabókum sem varðveist hafa í Evrópu og sú eina frá Norðurlöndum. Myndirnar eru gerðar af fjórum óþekktum listamönnum á tímabilinu 1350-1500. Miðaldateiknibækur miðluðu myndefni og formum í samræmi við hefð. Fyrir listamenn var safn fyrirmynda jafn nauðsynlegt og verkfæri og litir. Myndirnar voru ætlaðar til nota við ýmis notar listsköpun, aðallega í listaverk af kristilegum toga. Bókin var í notkun fáum áratugum áður en hún komst í eigu Árna Magnússonar um aldamótin 1700. Það mun einsdæmi um miðaldateiknibók.
Ekki er hægt að hafa Teiknibókina til sýnis að jafnaði vegna ástands blaðanna. Þegar handritið var flutt frá Kaupmannahöfn hingað til lands 2. júní 1991 var keypt undir hana flugsæti svo að hún yrði fyrir sem minnstu hnjaski.
Á sýningunni er eftirgerð á skinn af nokkrum blöðum handrits. Auk þess hefur bókin verið prentuð í heild í raunstærð. Þá hafa allmargar fyrirmyndir verið teiknaðar upp í tölvu í því skyni að gera þeir aðgengilegri fyrir almenning. Auk þess að vera höfundur bókarinnar er Guðbjörg jafnframt sýningarstjóri sýningarinnar í Gerðarsafni.
Forseti Íslands setti samkomuna en því næst flutti Egill Örn Jóhannsson, formaður Félags íslenskra bókaútgefenda, stutta tölu og kynnti tilnefnda höfunda. Forseti Íslands kynnti niðurstöður dómnefndar og afhenti verðlaunin. Verðlaunahöfundar ávörpuðu gesti.
Fjögurra manna lokadómnefnd valdi verkin úr hópi fimmtán bóka sem tilnefndar voru til verðlaunanna í desember á síðasta ári þegar fimm bækur voru tilnefndar í hverjum flokki. Lokadómnefnd var skipuð þeim Guðna Kolbeinssyni, Þorgerði E. Sigurðardóttur, Þóru Arnórsdóttur og Stefaníu Óskarsdóttur, sem var jafnframt var formaður nefndarinnar.
Íslensku bókmenntaverðlaunin nema einni milljón króna fyrir hvert verðlaunaverk. Auk þess er verðlaunahöfum afhent skrautrituð verðlaunaskjöl og verðlaunagripir, hannaðir af Jóni Snorra Sigurðssyni á gullsmíðaverkstæði Jens; opin bók á granítstöpli með nafni verðlaunahöfundar og bókar hans.
Snorri Helgason flutti lög sín Kveðja af plötunni Autumn Skies og Verum í sambandi sem hljómsveitin Sprengjuhöllin gaf út.
Eftirfarandi bækur voru tilnefndar til verðlauna í flokki barna- og unglingabóka:
Andri Snær Magnason: Tímakistan. Útgefandi: Mál og menning
Jóna Valborg Árnadóttir og Elsa Nielsen: Brosbókin. Útgefandi: Bókaútgáfan Salka
Sif Sigmarsdóttir: Freyju saga – Múrinn. Útgefandi: Mál og menning
Sigrún Eldjárn: Strokubörnin á Skuggaskeri. Útgefandi: Mál og menning
Vilhelm Anton Jónsson: Vísindabók Villa. Útgefandi: JPV útgáfa
Eftirfarandi bækur voru tilnefndar til verðlauna í flokki fagurbókmennta:
Eiríkur Guðmundsson: 1983. Útgefandi: Bjartur
Guðmundur Andri Thorsson: Sæmd. Útgefandi: JPV útgáfa
Jón Kalman Stefánsson: Fiskarnir hafa enga fætur. Útgefandi: Bjartur
Sjón, Sigurjón B. Siguðrsson: Mánasteinn - drengurinn sem aldrei var til. Útgefandi: JPV útgáfa
Vigdís Grímsdóttir: Dísusaga – Konan með gulu töskuna. Útgefandi: JPV útgáfa
Eftirfarandi bækur voru tilnefndar til verðlaunanna í flokki fræðirita og bóka almenns efnis:
Gísli Sigurðsson: Leiftur á horfinni öld – Hvað er merkilegt við íslenskar fornbókmenntir? Útgefandi: Mál og menning
Guðbjörg Kristjánsdóttir: Íslenska teiknibókin. Útgefandi: Crymogea
Guðmundur Páll Ólafsson: Vatnið í náttúru Íslands. Útgefandi: Mál og menning
Jón Gauti Jónsson: Fjallabókin. Útgefandi: Mál og menning
Sölvi Björn Sigurðsson Stangveiðar á Íslandi og Íslensk vatnabók. Útgefandi: Sögur
Íslensku bókmenntaverðlaunin
Íslensku bókmenntaverðlaununum var komið á fót árið 1989 í tilefni af 100 ára afmæli Félags íslenskra bókaútgefenda sem stofnað var í Reykjavík í janúar 1889. Fyrsta árið var verðlaununum ekki skipt í flokka en tilnefndar alls 10 bækur. Fyrsti verðlaunahafinn var ljóðskáldið Stefán Hörður Grímsson sem hlaut verðlaunin fyrir bókina Yfir heiðan morgun. Árið eftir var tilhögun verðlaunanna breytt þannig að tilnefndar bækur skiptust í tvo flokka, fagurbækur annars vegar og fræðibækur og rit almenns efnis hins vegar. Þannig hafa verðlaunin haldist óbreytt þar til nú að við bætist flokkur barna- og unglingabóka á sama tíma og verðlaunin verða veitt í 25. skipti.
Tilnefningar eru kynntar þann 1. desember ár hvert og verðlaunin síðan veitt síðla janúar eða í upphafi febrúar. Óháðar tilnefninganefndir, skipaðar þremur dómbærum fulltrúum hver, velja þær fimm bækur í hverjum flokki sem helst þykja skara fram úr. Lokaval er í höndum formanna nefndanna þriggja og forsetaskipaðs dómnefndarformanns. Velja þeir eina bók úr hverjum flokki þannig að þrjár bækur hljóta á endanum Íslensku bókmenntaverðlaunin. Forseti Íslands afhendir verðlaunin á Bessastöðum við hátíðlega athöfn. Allir sem gefa út bækur á Íslandi geta lagt fram bækur til verðlaunanna sama ár og þær koma út, hvort sem þeir eru í Félagi íslenskra bókaútgefenda eða ekki, og greiða fyrir það hóflegt gjald. Verðlaunaupphæðin er ein milljón króna fyrir höfund hvers verðlaunaverks. Íslensku bókmenntaverðlaunin 2012 hlutu Eiríkur Örn Norðdahl fyrir skáldsöguna Illsku og Gunnar F. Guðmundsson fyrir ævisöguna Pater Jón Sveinsson – Nonni.
Þeir sem áður hafa hlotið Íslensku bókmenntaverðlaunin eru:
1989 Stefán Hörður Grímsson
1990 Fríða Á. Sigurðardóttir og Hörður Ágústsson
1991 Guðbergur Bergsson og Guðjón Friðriksson
1992 Þorsteinn frá Hamri og Vésteinn Ólason, Guðrún Nordal, Sverrir Tómasson
1993 Hannes Pétursson og Jón G. Friðjónsson
1994 Silja Aðalsteinsdóttir og Vigdís Grímsdóttir
1995 Steinunn Sigurðardóttir og Þór Whitehead
1996 Böðvar Guðmundsson og Þorsteinn Gylfason
1997 Guðbergur Bergsson og Guðjón Friðriksson
1998 Hörður Ágústsson og Thor Vilhjálmsson
1999 Andri Snær Magnason og Páll Valsson
2000 Gyrðir Elíasson og Guðmundur Páll Ólafsson
2001 Hallgrímur Helgason og Sigríður Dúna Kristmundsdóttir
2002 Ingibjörg Haraldsdóttir og Pétur M. Jónasson, Páll Hersteinsson,
2003 Ólafur Gunnarsson og Guðjón Friðriksson
2004 Auður Jónsdóttir og Halldór Guðmundsson
2005 Jón Kalman Stefánsson og Kristín G. Guðnadóttir, Gylfi Gíslason, Arthur C. Danto, Matthías Jóhannessen, Silja Aðalsteinsdóttir, Eiríkur Þorláksson
2006 Ólafur Jóhann Ólafsson og Andri Snær Magnason
2007 Sigurður Pálsson og Þorsteinn Þorsteinsson
2008 Einar Kárason og Þorvaldur Kristinsson
2009 Guðmundur Óskarsson og Helgi Björnsson
2010 Gerður Kristný og Helgi Hallgrímsson
2011 Guðrún Eva Mínervudóttir og Páll Björnsson
2012 Eiríkur Örn Norðdahl og Gunnar F. Guðmundsson
2013 Sjón, Sigurjón B. Sigurðsson, Guðbjörg Kristjánsdóttir og Andri Snær Magnason