Afhending Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2020
Forseti Íslands, herra Guðni Th. Jóhannesson, afhenti í dag, þriðjudaginn 26. janúar, Íslensku bókmenntaverðlaunin 2020, við hátíðlega athöfn á Bessastöðum.
Íslensku bókmenntaverðlaunin nema einni milljón króna fyrir hvert verðlaunaverk og eru kostuð af Félagi íslenskra bókaútgefenda. Auk þess er verðlaunahöfum afhent skrautrituð verðlaunaskjöl og verðlaunagripir, hannaðir af Jóni Snorra Sigurðssyni á gullsmíðaverkstæði Jens; opin bók á granítstöpli með nafni verðlaunahöfundar og bókar hans.
Verðlaunin skiptust í þrjá flokka og þeir sem að þessu sinni hlutu verðlaunin voru:
Fræðibækur og rit almenns efnis:
Sumarliði R. Ísleifsson fyrir bókina Í fjarska norðursins : Ísland og Grænland – viðhorfasaga í þúsund ár. Útgefandi: Sögufélag
Umsögn lokadómnefndar:
Löndin í norðri, Ísland og Grænland, voru öldum saman sveipuð dularfullum og framandi bjarma í augum þeirra ferðalanga sem þangað lögðu leið sína. Í ritinu Í fjarska norðursins – Ísland og Grænland – viðhorfasaga í þúsund ár tekst Sumarliða R. Ísleifssyni að varpa ljósi á rúmlega þúsund ára viðhorfasögu gagnvart íbúum þessara eyja á afar aðgengilegan og skýran hátt. Athyglisvert og fróðlegt er að bera saman frásagnir, skoðanir og ályktanir þeirra mörgu fræðimanna, rithöfunda og landkönnuða sem koma við sögu og sjá hvaða breytingar verða á ímynd þessara fjarlægu eyja í tímans rás. Bókin er glæsilegt og eigulegt rit, fallega hönnuð og með ríkulegu myndefni.
Barna- og ungmennabækur:
Arndís Þórarinsdóttir og Hulda Sigrún Bjarnadóttir fyrir bókinaBlokkin á heimsenda. Útgefandi: Mál og menning
Umsögn lokadómnefndar:
Blokkin á heimsenda er afar athyglisverð bók þar sem unnið er skemmtilega úr mjög frumlegri hugmynd. Frásögnin er áreynslulaus og á köflum bráðfyndin þótt mikilvægi samheldni og vináttu séu meginstef. Sagan er í vissum skilningi ævintýraleg og sýna höfundar mikla hugmyndaauðgi, en þó eru aðstæðurnar ekki óhugsandi og persónurnar eru bæði aðgengilegar og breyskar. Deilt er með sterkum hætti á neysluhyggju Vesturlanda og loftslagsváin er alltumlykjandi, án þess þó að þeim boðskap sé þröngvað upp á lesendur. Frásagnargleðin skín í gegn og sagan hefur burði til að heilla lesendur á öllum aldri.
Skáldverk:
Elísabet Kristín Jökulsdóttir fyrir bókina Aprílsólarkuldi. Útgefandi: JPV útgáfa
Umsögn lokadómnefndar:
Í fjórðu skáldsögu Elísabetar Jökulsdóttur, Aprílsólarkulda, er fjallað á tilfinningaríkan og ljóðrænan hátt um föðurmissi, ást, sorg og geðheilbrigði. Þar segir Elísabet afar persónulega sögu byggða á brotum úr eigin ævi. Höfundur hefur gott vald á skáldsagnaforminu og nýtir það til hins ýtrasta. Þar fær ríkt myndmál og næmni sem einkennt hefur ljóðagerð Elísabetar að njóta sín vel og blæbrigðaríkur textinn leiðir lesandann óvænta en hrífandi leið í gegnum átakanlega sögu. Skáldævisaga Elísabetar er sérlega athyglisverð viðbót í þeirri tiltölulega nýskilgreindu bókmenntategund.