May06

Ísland - heiðursgestur á bókamessunni í Abu Dhabi

Höfundur Bryndís Loftsdóttir

Ísland verður að þessu sinni heiðursgestur bókamessunnar í Abu Dhabi sem haldin er um þessar mundir og tekur við keflinu frá Svíum sem voru heiðursgestir árið 2014. Á annan tug höfunda og útgefenda mun taka þátt í fjölmörgum dagskráratriðum og glæsileg sýningaraðstaða verður til kynningar á íslenskum bókum, landi og þjóð.

Abu Dhabi er eitt af hinum sjö Sameinuðu furstadæmum, en Abu Dhabi hefur markað sér þá sérstöðu síðustu ár að þar er mikill áhugi á menningu á meðan stjórnendur í Duabai hafa lagt áherslu á uppbyggingu fjármálamiðstöðvar. Í Abu Dhabi eru nú upp áform um að byggja útibú frá listasöfnunum Guggenheim og Louvre.

Sem merki um menningaráhuga Abu Dhabi, hefur þar verið stofnsett alþjóðleg bókamessa í samstarfi við bókamessuna í Frankfurt. Abu Dhabi bókamessan er haldin árlega og dregur að sér útgefendur frá öllum heimshornum. Þar sýna nú yfir 1000 útgefendur bækur frá 50 löndum.

Meðal sérkenna messunnar má nefna áherslu á myndskreytingar í bókum. Áslaug Jónsdóttir, einn höfunda bókanna um Stóra og Litla skrímslið ásamt fjölda annarra bóka og Lani Yamamoto, höfundur bókarinnar um Stínu stórusæng,  verða á meðal þeirra sem halda munu fyrirlestra á messunni og kynna verk sín.

Yrsa Sigurðardóttir og Ragnar Jónsson munu ræða um sakamálasögur og verðlaunahöfundurinn Jón Kalman Stefánsson mun fjalla um Himnaríkis- og helvítisþríleik sinn. Þá munu Gauti Kristmannsson, Þórir Jónsson Hraundal, Guðmundur Andri Thorsson og fleiri ræða um Íslendingasögurnar, verk Halldórs Laxness og samskipti Araba og Víkinga á miðöldum.