Dec01

Tilnefningar til Íslensku þýðingaverðlaunanna

Höfundur Bryndís Loftsdóttir

Fimm þýðendur tilnefndir

Tilkynnt var við hátíðlega athöfn í dag á Kjarvalsstöðum um tilnefningar til Íslensku þýðingaverðlaunanna 2014.  Fjórir af þeim fimm sem tilnefndir eru í ár hafa áður komið við sögu verðlaunanna. Gyrðir Elíasson hlaut þau árið 2012 fyrir þýðingu sína á ljóðasafninu Tunglið braust inn í húsið og Silja Aðalsteinsdóttir árið 2007 fyrir þýðingu sína á Wuthering Heights eftir Emily Brontë. Árið 2012 var Jón St. Kristjánsson tilnefndur til verðlaunanna fyrir þýðingu sína á Reisubók Gúllivers eftir Jonathan Swift og Hermann Stefánsson sama ár fyrir Fásinnu eftir Horacio Castellanos Moya. Herdís Hreiðarsdóttir hefur ekki áður gefið út þýðingu en Út í vitann er hluti af meistaraprófsverkefni hennar í þýðingafræði frá Háskóla Íslands árið 2013.

 

Eftirfarandi þýðingar eru tilnefndar til Íslensku þýðingaverðlaunanna 2014:

 

Þýðandi: Gyrðir Elíasson

Listin að vera einn - Shuntaro Tanikawa

Útgefandi: Dimma

 

Þýðandi: Herdís Hreiðarsdóttir

Út í vitann – Virginia Woolf

Útgefandi: Ugla

 

Þýðandi: Hermann Stefánsson

Uppfinning Morles – Adolfo Bioy Casares

Útgefandi: Kind

 

Þýðandi: Jón St. Kristjánsson

Náðarstund – Hannah Kent

Útgefandi: JPV

 

Þýðandi: Silja Aðalsteinsdóttir

Lífið að leysa – Alice Munro

Útgefandi: Mál og menning

 

Dómnefnd skipuðu:

 Árni Matthíasson formaður nefndar, María Rán Guðjónsdóttir og Tinna Ásgeirsdóttir

 

Um Íslensku þýðingaverðlaunin

Bandalag þýðenda og túlka hefur frá árinu 2005 veitt verðlaun á alþjóðlegum degi bókarinnar, 23. apríl, fyrir íslenska þýðingu á erlendu skáldverki. Forseti Íslands afhendir verðlaunin á Gljúfrasteini, en svo vill til að dagur bókarinnar er einnig fæðingardagur Halldórs Laxness.

Íslensku þýðingaverðlaunin voru sett á fót til að vekja athygli á mikilvægi þýðinga fyrir íslenska menningu og þeim afbragðsverkum sem auðga íslenskar fagurbókmenntir á ári hverju fyrir tilstilli þýðenda. Upphaflega kusu félagsmenn Bandalags þýðenda og túlka um tilnefnd verk, en fljótlega var ákveðið að fela óháðri þriggja manna dómnefnd að tilnefna fimm verk og velja verðlaunahafann. Tilnefningar eru kynntar samhliða tilnefningum til Íslensku bókmenntaverðlaunanna.