Feb15

Tveir nýir heiðursfélagar

Höfundur Bryndís Loftsdóttir

Aðalfundur Félags íslenskra bókaútgefenda var haldinn á Nauthóli 8. febrúar síðast liðinn. Á fundinum var tilkynnt um útnefningu tveggja heiðursfélaga félagsins en þeir eru Sverrir Kristinsson og Björn Eiríksson. Tók Sverrir við viðurkenningunni frá félaginu á fundinum en aðstandendur Björns tóku við henni fyrir hans hönd en hann lést í nýliðnum mánuði.

Sverrir hefur gegnt starfi framkvæmdastjóra (bókavarðar) Hins íslenska bókmenntafélags í tæplega hálfa öld. Hann stofnaði og rak bókaútgáfuna Lögberg á árunum 1980-1989, sem gaf út stórvirki og dýrgripi af margvíslegu tagi í samstarfi við ýmsa aðila, m.a. Stofnun Árna Magnússonar, Listasafn ASÍ, Þjóðminjasafn Íslands og Hið íslenska biblíufélag. Meðal bókverka Lögbergs má nefna Nýja testamenti Odds Gottskálkssonar, Skálholt fornleifarannsóknir, ljósprentun Guðbrandsbiblíu, Skarðsbókar og Helgastaðabókar, ásamt ritröð um íslenska myndlist. Meðal þess sem Bókmenntafélagið hefur gefið út á þessu tímabili, sem Sverrir hefur verið framkvæmdastjóri, má nefna Sögu Íslands, Safn til iðnsögu Íslendinga, bækur um arkitektúr og bækur í hinni merku röð Lærdómsrit Bókmenntafélagsins sem nú eru orðin tæplega 100 talsins. Félagið hefur einnig gefið út tímaritið Skírni frá 1827. Sverrir hefur tekið að sér ótal trúnaðar- og félagsstörf. Hann sat í stjórn Félags íslenskra bókaútgefenda í allmörg ár og var fulltrúi útgefenda í stjórn Þýðingarsjóðs um tveggja ára skeið. Hann var formaður stjórnar Þjóðskjalasafns Íslands frá 1985-89 og 1993-1997.  Hann hefur verið ástríðufullur safnari myndlistar og fágætra bóka um langt skeið og aflað sér yfirgripsmikillar þekkingar á því sviði. Þess má geta að á þessu áru eru liðin 50 ár frá því að Sverrir gaf út fyrstu bók sína, Hátíðarljóð 1968, en hún tengdist 50 ára afmæli fullveldis Íslands.

Björn Eiríksson bókaútgefandi sem lengst af var kenndur við Bókaútgáfuna Skjaldborg lést 23. janúar sl. á Líknardeild Landspítalans í Kópavogi. Heiðurstilnefningunni hafði Björn sjálfur veitt viðtöku fyrir andlátið en hans var sérstaklega minnst á aðalfundinum. Björn keypti í félagi við aðra bæði prentsmiðju Björns Jónssonar og bókaútgáfuna Skjaldborg á Akureyri árið 1975 og voru fyrirtækin rekin samhliða. Um tíma rak hann einnig Bókaverzlunina Eddu á Akureyri. Björn flutti ásamt fjölskyldu sinni til Reykjavíkur árið 1986 og starfsemi Skjaldborgar með honum, en þá hafði hann keypt hlut viðskiptafélaga sinna. Björn var umsvifamikill útgefandi á starfsferlinum sem hann sinnti af elju og hugsjón allt til dauðadags. Hann gaf út minnisstæð ritverk og margskonar bækur um þjóðlegan fróðleik. Meðal bóka sem hann gaf út eru Miðilshendur Einars á Einarsstöðum, bókaflokkurinn Aldnir hafa orðið, Göngur og réttir, Samræður við Guð, bækur Mary Higgins Clark, verk eftir David Attenbourgh. Þá gaf hann einnig út fjölmargar barnabækur, svo sem bækurnar um Bert og Depil auk þess sem hann lagði áherslu á útgáfu vandaðra ritverka og fræðibóka fyrir börn. Björn starfaði við bókaútgáfu allt til dauðadags en síðustu bækurnar sem hann gaf út komu út á síðasta ári. Björn sat í stjórn Félags íslenskra bókaútgefenda í yfir 20 ár og lét að sér kveða í ýmsum baráttumálum félagsins.

Á aðalfundinum urðu einnig formannsskipti í félaginu. Egill Örn Jóhannsson, framkvæmdastjóri Forlagsins, lét af formennsku eftir 5 ára starf en við tók Heiðar Ingi Svansson, framkvæmdastjóri hjá IÐNÚ útgáfu, sem hefur verið varaformaður alla formannstíð Egils Arnar.