Dec02

Tilnefningar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2020

Höfundur Félag íslenskra bókaútgefenda

Tilnefningar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2020

Tilnefningar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2020 voru kynntar í Kiljuþætti Egils Helgasonar, miðvikudaginn 2. desember.

Íslensku bókmenntaverðlaunin 2020 verða afhent um mánaðarmótin janúar-febrúar á komandi ári af forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessyni. Formenn dómnefndanna þriggja, sem valið hafa tilnefningarnar, munu koma saman ásamt forsetaskipuðum formanni, Ingunni Ásdísardóttur og velja einn verðlaunahafa úr hverjum flokki. Verðlaunaupphæðin er ein milljón króna fyrir hvert verðlaunaverk. Félag íslenskra bókaútgefenda kostar verðlaunin.

Verðlaunin voru fyrst veitt árið 1989 og er ætlað að draga fram athyglisverðustu útgáfubækur hvers árs. Þetta er í 32. sinn sem tilnefnt er til verðlaunanna. Sambærileg verðlaun eru veitt af útgefendafélögum í Svíþjóð og Noregi. Sænsku verðlaunin eru jafn gömul þeim íslensku, voru stofnuð árið 1989, og bera nafnið Augustpriset (http://www.augustpriset.se/). Norsku verðlaunin heita Brageprisen (http://brageprisen.no/). Þau voru stofnuð árið 1992.

Eftirfarandi höfundar eru tilnefndir í flokki fræðibóka og rita almenns efnis:

Erla Hulda Halldórsdóttir, Kristín Svava Tómasdóttir, Ragnheiður Kristjánsdóttir og Þorgerður H. Þorvaldsdóttir
Konur sem kjósa - aldarsaga
Útgefandi: Sögufélag

Bókin er afrakstur mikilvægrar og vandaðrar fræðilegrar rannsóknar á jafnréttisbaráttunni á Íslandi í 100 ár, en einnig á stjórnmála- og menningarsögunni. Uppsetning bókarinnar er áhugaverð og hönnunin nýstárleg þar sem fjöldi ljósmynda, veggspjalda og úrklippa eru notaðar til að glæða söguna lífi.  

Gísli Pálsson
Fuglinn sem gat ekki flogið
Útgefandi: Mál og menning

Aldauða dýrategunda hefur ekki verið gefinn mikill gaumur til þessa hér á landi. Því er mikill fengur að þessari bók, sem beinir sjónum okkar m.a. að útrýmingarhættu og margvíslegum umhverfisvanda sem við stöndum frammi fyrir. Geirfuglabækur tveggja breskra fræðimanna sem héldu í Íslandsleiðangur 1858 og höfundur hefur rannsakað í þaula varpa nýju ljósi á sögu og örlög síðustu geirfuglanna við strendur landsins.

Kjartan Ólafsson
Draumar og veruleiki - Um Kommúnistaflokkinn og Sósíalistaflokkinn
Útgefandi: Mál og menning

Verkið er yfirgripsmikið og varpar áhugaverðu ljósi á stjórnmála- og stéttasögu vinstri manna hér á landi á 20. öldinni af miklu innsæi og hreinskilni. Um er að ræða tímamótarit þar sem nýjar og áður óaðgengilegar heimildir eru nýttar.

Pétur H. Ármannsson
Guðjón Samúelsson húsameistari
Útgefandi: Hið íslenska bókmenntafélag

Vandað og löngu tímabært ritverk um fyrsta Íslendinginn sem lauk háskólaprófi í byggingarlist á síðustu öld. Líf Guðjóns Samúelssonar húsameistara var helgað starfi hans og list. Saga hans og ævistarfsins er vel og skilmerkilega rakin í bókinni. Höfundur byggir á víðtækum rannsóknum sínum og djúpum skilningi á viðfangsefninu. Fjölmargar myndir og uppdrættir prýða bókina.

Sumarliði R. Ísleifsson
Í fjarska norðursins : Ísland og Grænland – viðhorfasaga í þúsund ár
Útgefandi: Sögufélag

Höfundi tekst að færa lesendum efni rannsóknar sinnar á mjög aðgengilegan og skýran hátt, þar sem hann varpar ljósi á rúmlega 1000 ára viðhorfasögu gagnvart íbúum þessara eyja. Bókin er glæsilegt og eigulegt rit, fallega hönnuð og vel myndskreytt.

Dómnefnd skipuðu:
Einar Örn Stefánsson, formaður dómnefndar, Björn Pétursson og Jóhanna Kristín Jóhannesdóttir

Eftirfarandi höfundar eru tilnefndir í flokki barna- og ungmennabóka:

Arndís Þórarinsdóttir og Hulda Sigrún Bjarnadóttir
Blokkin á heimsenda
Útgefandi: Mál og menning

Frumleg og athyglisverð bók. Fyndin og áreynslulaus frásögn með snjöllum lausnum sem bera hugmyndaauðgi höfunda glöggt vitni. Mikilvægi samheldni og vináttu eru ákveðið meginstef í sögu sem deilir með sterkum hætti á neysluhyggju Vesturlanda. Loftslagsváin er alltumlykjandi en sterkum boðskapnum er aldrei þröngvað upp á lesandann heldur er hann borinn snyrtilega fram með húmor í aðalhlutverki.

Hildur Knútsdóttir
Skógurinn
Útgefandi: JPV útgáfa

Djúp og afar vel skrifuð spennusaga um úthugsaða ævintýraveröld sem höfundur hefur lagt mikla vinnu í að skapa og gera trúverðuga, með heillandi vangaveltum um vísindin og hið yfirnáttúrulega. Lesandinn er rækilega minntur á hvernig nútíma lifnaðarhættir gætu leitt mannkynið á glapstigu, án þess að boðskapurinn yfirtaki skemmtilega og oft æsispennandi atburðarás.

Kristín Björg Sigurvinsdóttir
Dulstafir - Dóttir hafsins
Útgefandi: Björt – Bókabeitan

Áhrifarík bók þar sem höfundur dregur upp ljóslifandi mynd af fullsköpuðum ævintýraheimi. Sorg og missi eru gerð falleg skil sem og leitinni að hugrekki og innri styrk. Frásögnin er örugg, lýsandi og afar myndræn en þó skilur höfundur eftir rými til túlkunar og lesturs á milli línanna. Framhaldsins verður beðið með eftirvæntingu. 

Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir
Grísafjörður
Útgefandi: Salka

Hlý og afar skemmtileg saga, raunsæ en þó með heillandi ævintýrablæ. Saga um hversdagsleikann með öllum sínum áskorunum og fólkið sem skiptir okkur mestu máli, en líka vináttu úr óvæntri átt, hjálpsemi og það að engum er alls varnað. Vandaðar myndir höfundar bæta heilmiklu við söguna ásamt fallegum frágangi og sniðugum fylgihlutum.

Yrsa Sigurðardóttir
Herra Bóbó, Amelía og ættbrókin
Útgefandi: Veröld

Heilsteypt og drepfyndin bók þar sem einstakt hugmyndaflug fær að blómstra. Óhefðbundinn sögumaður nýtur sín afar vel í bráðsniðugum lýsingum höfundar á tilfinningalífi hans og sýn á heiminn. Skemmtileg ærslasaga með klassískan boðskap um gildi sannrar vináttu. Einfaldar en stórskemmtilegar myndir falla vel að textanum og gera söguna enn betri.

Dómnefnd skipuðu:
Hrund Þórsdóttir, formaður dómnefndar, Einar Eysteinsson og Katrín Lilja Jónsdóttir

Eftirfarandi höfundar eru tilnefndir í flokki skáldverka:

Arndís Þórarinsdóttir
Innræti
Útgefandi: Mál og menning

Í þessari fyrstu ljóðabók Arndísar Þórarinsdóttur er að finna leiftrandi lýsingar í meitluðum og fumlegum ljóðum sem skilja mikið eftir sig í huga lesandans að lestri loknum.

Auður Ava Ólafsdóttir
Dýralíf
Útgefandi: Benedikt bókaútgáfa

Heimspekilegar vangaveltur um lífið, dauðann og mannskepnuna sem dýrategund einkennir þessa sjöundu skáldsögu Auðar Övu Ólafsdóttur. Persónusköpunin í þessum fallega texta er bæði heillandi og eftirminnileg.

Elísabet Kristín Jökulsdóttir
Aprílsólarkuldi
Útgefandi: JPV útgáfa

Aprílsólarkuldi er tilfinningarík og ljóðræn frásögn um föðurmissi, ást, sorg og geðveiki. Næmni Elísabetar Jökulsdóttur sem sést hefur í ljóðum hennar skilar sér í vel í skáldsagnaforminu.

Jónas Reynir Gunnarsson
Dauði skógar
Útgefandi: JPV útgáfa

Jónas Reynir Gunnarsson tæpir á helstu málum samtímans í þessari þriðju skáldsögu sinni. Fjallað er á margræðan hátt um tengsl náttúru og manns, innri átök hans og hið óumflýjanlega í tilverunni.

Ólafur Jóhann Ólafsson
Snerting
Útgefandi: Veröld

Í Snertingu eftir Ólaf Jóhann Ólafsson er dregin upp sannfærandi mynd af samfélaginu og aðstæðum fólks af ólíkum uppruna. Nútíð og fortíð er listilega fléttað saman þannig að úr verður skáldsaga sem skiptir máli.

Dómnefnd skipuðu:
Jóhannes Ólafsson, formaður dómnefndar, Guðrún Lilja Magnúsdóttir og Hildur Ýr Ísberg
 

 

 

Oct01

Íslensku bókmenntaverðlaunin

Höfundur Félag íslenskra bókaútgefenda

Skráning framlagðra verka stendur yfir til 12. október

Íslensku bókmenntaverðlaunin

Á skrifstofu Félags íslenskra bókaútgefenda stendur nú yfir skráning og móttaka framlagðra verka til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Verðlaunin skiptast í þrjá flokka; barna- og ungmennabækur, fræðibækur og rit almenns efnis og fagurbókmenntir.  Lokafrestur til skráninga framlagðra verka er 12. október og skulu verkin berast dómnefndum um leið og prentuð eintök eru tilbúin.

Gjald fyrir framlagðar bækur er 35.000 kr. Skila skal þremur eintökum af framlögðum verkum og má eins og áður á fyrsta stigi leggja fram handrit eða prófarkir. Nánari upplýsingar um bókmenntaverðlaunin fást á skrifstofu félagsins, fibut@fibut.is.

Sep16

Skráning nýrra bóka í Bókatíðindi er hafin

Höfundur Félag íslenskra bókaútgefenda

lokafrestur til 12. október

Skráning nýrra bóka í Bókatíðindi er hafin

Í Bókatíðindum eru allir helstu útgáfutitlar ársins kynntir með stuttum texta, upplýsingum um höfunda, þýðendur og útgefendur ásamt kápumynd.

Bókatíðindum er dreift til heimila sem taka á móti fjölpósti, til bókaverslana og bókasafna. Þá verður í ár einnig hægt að nálgast blaðið í verslunum N1 á öllu landinu.

Nýjum útgefendum er bent á að koma upplýsingum um nafn, kennitölu, heimilisfang, netfang og símanúmer útgefanda á netfangið fibut@fibut.is með ósk um aðgang að skráningargrunni. 

Verð á kynningum: kr. 28.990,- + vsk. 

Aug21

Vilt þú starfa í dómnefnd Íslensku bókmenntaverðlaunanna?

Höfundur Félag íslenskra bókaútgefenda

Vilt þú starfa í dómnefnd Íslensku bókmenntaverðlaunanna?

Við leitum eftir einstaklingum á ólíkum aldri, með fjölbreyttan bakgrunn og menntun, til þess að velja athyglisverðustu bækur ársins í dómnefnd Íslensku bókmenntaverðlaunanna.

Laun fyrir nefndarsetu eru kr. 125.000 auk þess sem nefndarmeðlimir fá allar framlagðar bækur í sínum flokki til eignar. Starfstímabilið er frá 10. september til 25. nóvember 2020.

Horft er til 2. kafla, 3. gr. stjórnsýslulaga varðandi hæfi dómnefndarfólks sem tengist höfundum eða útgefendum framlagðra verka, sjá; https://www.althingi.is/lagas/nuna/1993037.html

 

Áhugasamir lesendur eru beðnir um að skrá sig hér: https://forms.gle/vn4CUVCWXn4ecwfD6

Tekið er á móti skráningum til og með 31. ágúst.

Mar20

Bókaútgefendur rukka ekki sendingarkostnað innanlands

Höfundur Félag íslenskra bókaútgefenda

Bókaútgefendur rukka ekki sendingarkostnað innanlands

 

 

Íslenskir bókaútgefendur bjóða margir upp á ókeypis heimsendingarþjónustu á Íslandi á meðan á samkomubanninu stendur eða fram til 13. apríl.

Lesendur í sóttkví eða einangrun eru hvattir til að geta þess í pöntunum sínum þannig að hægt sé að skilja sendingu eftir við hús og hingja í viðkomandi til að sækja út.

 

 

Útgefendur sem senda bækur með þessum hætti:

 • AM forlag - www.amforlag.com
 • Angústúra - www.angustura.is
 • Benedikt bókaútgáfa - www.benedikt.is
 • Bjartur Veröld - www.bjartur-verold.is
 • Bókaútgáfan Hólar - holar@holabok.is
 • Bókstafur (ef keyptar eru 3 eða fleiri bækur) - www.bokstafur.is
 • Crymogea - www.crymogea.is
 • Edda útgáfa (500 kr. gjald óháð magni) - www.edda.is 
 • Forlagið - www.forlagid.is
 • Iðnú - www.idnu.is
 • Kver - www.kver.is/online-store
 • Oran Books - www.oran.is
 • Óðinsauga - pantanir@odinsauga.com
 • Partus - www.partus.is
 • Rósakot - www.rosakot.is
 • Salka (frí heimsending á pöntunum yfir kr. 6.000) - www.salka.is
 • Setberg (frí heimsending á pöntunum yfir kr. 5.000) - www.setberg.is
 • Storytel - www.storytel.is
 • Sögur útgáfa – www.sogurutgafa.is
 • Una útgáfuhús - www.utgafuhus.is

Jan31

Íslensku bókmenntaverðlaunin, ræða formanns sjórnar Félags íslenskra bókaútgefenda

Höfundur Félag íslenskra bókaútgefenda

Íslensku bókmenntaverðlaunin, ræða formanns sjórnar Félags íslenskra bókaútgefenda

Herra forseti, forsetafrú, höfundar, útgefendur, aðrir gestir hér á Bessastöðum og ekki síst þið sem heima sitjið,

Undanfarin tvö ár hefur verið framkvæmd lestrarkönnun af ýmsum aðilum sem tengjast bókum og bókmenningu. Um framkvæmd könnunarinnar sér Miðstöð íslenskra bókmennta og er hún gerð í samstarfi við helstu aðila á bókmenntasviðinu sem eru ásamt okkur í Félagi íslenskra bókaútgefenda; Rithöfundasamband Íslands, Hagþenkir, Borgarbókasafnið, Landsbókasafn – Háskólabókasafn og Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO.

Niðurstöðurnar, sem voru birtar um miðjan nóvember s.l., eru að mörgu leyti áhugaverðar. Þar kemur m.a. fram að lestur hefur heldur aukist og þá sérstaklega vegna aukinnar notkunar hljóðbóka. Afkastamestu lesendurnir eru konur og barnafjölskyldur og ungt fólk les mikið á öðrum tungumálum en íslensku. Einnig kemur skýrt fram að samtal um um bækur lifir góðu lífi og hefur mikil áhrif á hvað fólk les. Þannig fær um helmingur svarenda hugmyndir að lesefni frá vinum og ættingjum.

Jan29

Afhending Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2019

Höfundur Félag íslenskra bókaútgefenda

 

Forseti Íslands, herra Guðni Th. Jóhannesson, afhenti Íslensku bókmenntaverðlaunin 2019, við hátíðlega athöfn á Bessastöðum þriðjudaginn 28. janúar 2020. Íslensku bókmenntaverðlaunin nema einni milljón króna fyrir hvert verðlaunaverk og eru kostuð af Félagi íslenskra bókaútgefenda.

Verðlaunin skiptust  í þrjá flokka og þeir sem að þessu sinni hlutu verðlaunin voru:

Fræðibækur og rit almenns efnis:

Jón Viðar Jónsson
Stjörnur og stórveldi á leiksviðum Reykjavíkur 1925 - 1965
Útgefandi: Skrudda

Barna- og ungmennabækur:

Bergrún Íris Sævarsdóttir
Langelstur að eilífu
Útgefandi: Bókabeitan

Fagurbókmenntir:

Sölvi Björn Sigurðsson
Selta - Apókrýfa úr ævi landlæknis
Útgefandi: Sögur Útgáfa

Í umsögn dómnefndar um verkin segir:

Stjörnur og stórveldi eftir Jón Viðar Jónsson:

Hér eru helstu stjörnurnar í leiklistarsögu þjóðarinnar á fyrri hluta 20. aldar dregnar lifandi og skýrum dráttum og list þeirra gerð ítarleg og góð skil. Þrátt fyrir að bókin byggi á köflum um einstaka leikara og leiksögu þeirra, gefur hún jafnframt samfellda og skýra mynd af fyrstu árum reglulegrar leiklistarstarfsemi hér á landi, ekki aðeins á leiksviðinu sjálfu heldur einnig í útvarpi og á bak við tjöldin og er því mikilvægt framlag til leiklistarsögu okkar.

Langelstur að eilífu eftir Bergrúnu Írisi Sævarsdóttur:

Í bókinni Langelstur að eilífu er fjallað á hispurslausan hátt um elli, dauða og sorg. Þessu viðkvæma efni eru gerð afar falleg skil í bæði texta og myndum sem miðla sögunni í sameiningu. Þetta er áhrifarík en jafnframt hnyttin og skemmtileg bók um þarft umfjöllunarefni fyrir börn

Selta eftir Sölva Björn Sigurðsson:

Frumleg og áhrifarík saga sem fer víða með lesandann í tíma og rúmi, yfir vötn og lönd en ekki síður innansálar. Hið ytra er frásögnin sett niður fyrir tveimur öldum en jafnframt rambar hún á barmi raunveru og hugarflugs. Sögunni er valið málsnið sem hæfir bæði sögutíma og frásagnaraðferð og sýnir höfundur þar fágæta stílsnilld. 

 

 

Nov29

Tilnefningar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2019

Höfundur Félag íslenskra bókaútgefenda

Sunnudaginn 1. desember var tilkynnt við hátíðlega athöfn á Kjarvalsstöðum, um tilnefningar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2019.

Eftirfarandi bækur eru tilnefndar í flokki fræðibóka og rita almenns efnis:

Jón Viðar Jónsson
Stjörnur og stórveldi á leiksviðum Reykjavíkur 1925 - 1965
Útgefandi: Skrudda

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir
Lífgrös og leyndir dómar – Lækningar, töfrar og trú í sögulegu ljósi
Útgefandi: Vaka-Helgafell

Páll Baldvin Baldvinsson
Síldarárin 1867-1969
Útgefandi: JPV útgáfa

Sigríður Kristín Þorgrímsdóttir
Jakobína – saga skálds og konu
Útgefandi: Mál og menning

Unnur Birna Karlsdóttir
Öræfahjörðin – Saga hreindýra á Íslandi
Útgefandi: Sögufélag

Dómnefnd skipuðu: Árni Sigurðsson, Kolbrún Elfa Sigurðardóttir og Knútur Hafsteinsson sem jafnframt var formaður nefndar.

 

Eftirfarandi bækur eru tilnefndar í flokki barna- og ungmennabóka:

Arndís Þórarinsdóttir
Nærbuxnanjósnararnir
Útgefandi: Mál og menning

Bergrún Íris Sævarsdóttir
Langelstur að eilífu
Útgefandi: Bókabeitan

Hildur Knútsdóttir
Nornin
Útgefandi: JPV útgáfa

Lani Yamamoto
Egill spámaður
Útgefandi: Angústúra

Margrét Tryggvadóttir
Kjarval – málarinn sem fór sínar eigin leiðir
Útgefandi: Iðunn

Dómnefnd skipuðu: Anna Þorbjörg Ingólfsdóttir, formaður nefndar, Jórunn Sigurðardóttir og Þórlindur Kjartansson.

 

Eftirfarandi bækur eru tilnefndar í flokki fagurbókmennta:

Bergþóra Snæbjörnsdóttir
Svínshöfuð
Útgefandi: Benedikt bókaútgáfa

Bragi Ólafsson
Staða pundsins
Útgefandi: Bjartur

Guðrún Eva Mínervudóttir
Aðferðir til að lifa af
Útgefandi: Bjartur

Sölvi Björn Sigurðsson
Selta - Apókrýfa úr ævi landlæknis
Útgefandi: Sögur útgáfa

Steinunn Sigurðardóttir
Dimmumót
Útgefandi: Mál og menning

Dómnefnd skipuðu: Bergsteinn Sigurðsson, formaður nefndar, Ragnhildur Richter og Steingrímur Þórðarson

Nov05

Rafræn útgáfa Bókatíðinda nú aðgengileg

Höfundur Félag íslenskra bókaútgefenda

Prentaðri útgáfu verður dreift dagana 18.-19. nóvember

Rafræn útgáfa Bókatíðinda er nú fáanleg hér: BOKATIDINDI PDF

Dreifing á prentaðri útgáfu er fyrirhuguð dagana 18.-19. nóvember.

Sep24

Íslensku bókmenntaverðlaunin

Höfundur Félag íslenskra bókaútgefenda

Skráning hafin á framlögðum verkum

Íslensku bókmenntaverðlaunin

 

Félag íslenskra bókaútgefenda hefur hafið skráningu á framlögðum verkum til Íslensku bókmenntaverðlaunanna.  Þátttaka er öllum útgefendum opin en skilyrði er að framlagðar bækur séu útgefnar árið 2019. Gjald fyrir hvert framlagt verk er kr. 35.000. Verðlaunin eru ein milljón fyrir verðlaunaverk hvers flokks. 

Tilkynnið bækur vegna verðlaunanna sem fyrst og eigi síðar en 10. október nk. á netfangið fibut@fibut.is

Verðlaunin eru veitt í þremur flokkum og við tilnefningu skal tekið fram hvort um er að ræða:

 • Frumsamið íslenskt skáldverk, laust mál eða ljóð, fyrir fullorðna.
 • Annað íslenskt ritverk, fræðirit, frásagnir, handbækur fyrir fullorðna og hver þau verk sem að jafnaði teljast ekki skáldverk eða fagurbókmenntir.
 • Frumsamið íslenskt verk fyrir börn og ungmenni.

Skila skal þremur eintökum af framlögðum verkum og má eins og áður á fyrsta stigi leggja fram handrit eða prófarkir. Tilnefningar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna fara fram fyrsta desember og afhending verðlaunanna sjálfra eigi síðar en 15. febrúar 2020.

Nánari upplýsingar um bókmenntaverðlaunin fást á skrifstofu félagsins.

<<  1 [23 4 5 6  >>