Sep24

Barnabókamessa

Höfundur Félag íslenskra bókaútgefenda

Nýjar barna- og ungmennabækur

Barnabókamessa

Barnabókamessa fyrir starfsfólk leikskóla og skólabókasafna verður haldin í nóvember. Á messunni verða kynntar barna- og ungmennabækur sem útgefnar hafa verið á árinu og auglýstar eru í Bókatíðindum. 

Nánari upplýsingar og skráning á bryndis@fibut.is

Jun21

Upplýsingar um endurgreiðslu á kostnaði við bókaútgáfu á íslensku

Höfundur Félag íslenskra bókaútgefenda

Upplýsingar um endurgreiðslu á kostnaði við bókaútgáfu á íslensku

Miðvikudaginn 26. júní var haldinn fundur í mennta- og menningarmálaráðuneytinu um nýtt endurgreiðslukerfi vegna bókaútgáfu á íslensku. Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, ávarpaði fundinn og í kjölfarið var nýtt umsóknarferli kynnt og fyrirspurnum svarað.

Ráðgert er að opnað verði fyrir umsóknarferlið 9. júlí nk. á rannis.is. Eingöngu verður tekið við rafrænum umsóknum í gegnum Rannís vefinn.

Glærurnar sem sýndar voru á fundinum má nálgast hér: Endurgreiðsla vegna bókaútgáfu - kynningarglærur 

Feb11

Aðalfundur Félags íslenskra bókaútgefenda

Höfundur Félag íslenskra bókaútgefenda

Ráðherra heimsótti fundinn og ný stjórn var kynnt

Aðalfundur Félags íslenskra bókaútgefenda fór fram á Nauthóli föstudaginn 8. febrúar. Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, hóf fundinn með stormandi ræðu um mikilvægi íslenskrar bókaútgáfu. Því næst tóku við hefðbundin aðalfundarstörf. Formaður félagsins minntist Sigurðar Svavarssonar og ný stjórn félagsins var kynnt. Í stjórn félagsins á komandi starfsári sitja Heiðar Ingi Svansson, formaður, Anna Lea Friðriksdóttir, Birgitta Elín Hassell, Egill Örn Jóhannsson, Guðrún Vilmundardóttir, Jónas Sigurgeirsson, María Rán Guðjónsdóttir sem nú kemur ný inn í stjórn, Ólöf Dagný Óskarsdóttir, Pétur Már Ólafsson, Stefán Hjörleifsson og Tómas Hermannsson.

Jan29

Afhending Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2018

Höfundur Félag íslenskra bókaútgefenda

Afhending Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2018

Forseti Íslands, herra Guðni Th. Jóhannesson, afhenti Íslensku bókmenntaverðlaunin 2018, við hátíðlega athöfn á Bessastöðum þann 29. janúar. Verðlaunin skiptust  í þrjá flokka og þeir sem að þessu sinni hlutu verðlaunin voru:

Fræðirit og bækur almenns efnis:

Hörður Kristinsson, Þóra Ellen Þórhallsdóttir og Jón Baldur Hlíðberg: Flóra Íslands -Blómplöntur og byrkingar. Útgefandi: Vaka Helgafell.

Barna- og ungmennabækur:

Sigrún Eldjárn: Silfurlykillinn. Útgefandi: Mál og menning.

Fagurbókmenntir:

Hallgrímur Helgason: Sextíu kíló af sólskini. Útgefandi: JPV útgáfa.

 

Jan07

Bókamarkaðurinn á Laugardalsvelli

Höfundur Félag íslenskra bókaútgefenda

22. febrúar - 10. mars

Bókamarkaðurinn á Laugardalsvelli

Stóri Bókamarkaðurinn verður haldinn á Laugardalsvelli dagana 22. febrúar til 10. mars.

Útgefendum sem vilja koma bókum á markaðinn er bent á að hafa samband við skrifstofu félagsins á netfangið bryndis@fibut.is

Stefnt er að því að Bókamarkaðurinn fari norður á Akureyri í lok mars, líkt og undanfarin ár. Þá er einnig stefnt að því að opna á Egilsstöðum í apríl. 

Dec01

Tilnefningar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna

Höfundur Félag íslenskra bókaútgefenda

Tilnefningar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna

Föstudaginn 1. desember kl. 17:00 var tilkynnt við hátíðlega athöfn á Kjarvalsstöðum, um tilnefningar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2018.

Formenn dómnefndanna þriggja sem valið hafa tilnefningarnar, munu svo koma saman ásamt forsetaskipuðum formanni og velja einn verðlaunahafa úr hverjum flokki. Íslensku bókmenntaverðlaunin 2018 verða afhent um mánaðarmótin janúar-febrúar á komandi ári af forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessyni. Verðlaunaupphæðin er ein milljón króna fyrir hvert verðlaunaverk.

Verðlaunin voru fyrst veitt árið 1989. Þetta því í 30. sinn sem tilnefnt er til verðlaunanna. 

Eftirfarandi bækur eru tilnefndar í flokki fræðibóka og rita almenns efnis:

Auður Jónsdóttir, Bára Huld Beck og Steinunn Stefánsdóttir
Þjáningarfrelsið. Óreiða hugsjóna og hagsmuna í heimi fjölmiðla
Útgefandi: Mál og menning

Hörður Kristinsson, Jón Baldur Hlíðberg  og Þóra Ellen Þórhallsdóttir
Flóra Íslands. Blómplöntur og byrkningar
Útgefandi: Vaka-Helgafell

Ragnar Helgi Ólafsson
Bókasafn föður míns
Útgefandi: Bjartur

Sverrir Jakobsson
Kristur. Saga hugmyndar
Útgefandi: Hið íslenska bókmenntafélag

Þórunn Jarla Valdimarsdóttir
Skúli fógeti - faðir Reykjavíkur
Útgefandi: JPV útgáfa

Dómnefnd skipuðu:

Knútur Hafsteinsson, Kolbrún Elfa Sigurðardóttir og Þórunn Sigurðardóttir, formaður nefndar.

 

Eftirfarandi bækur eru tilnefndar í flokki barna- og ungmennabóka:

Hjörleifur Hjartarson og Rán Flygenring
Sagan um Skarphéðin Dungal sem setti fram nýjar kenningar um eðli alheimsins
Útgefandi: Angústúra

Hildur Knútsdóttir
Ljónið
Útgefandi: JPV útgáfa

Ragnheiður Eyjólfsdóttir
Rotturnar
Útgefandi: Vaka-Helgafell

Sigrún Eldjárn
Silfurlykillinn
Útgefandi: Mál og menning

Arnar Már Arngrímsson
Sölvasaga Daníelssonar 
Útgefandi: Sögur útgáfa

Dómnefnd skipuðu:

Anna Þorbjörg Ingólfsdóttir, formaður nefndar, Jórunn Sigurðardóttir og Þórlindur Kjartansson.

 

Eftirfarandi bækur eru tilnefndar í flokki fagurbókmennta:

Auður Ava Ólafsdóttir
Ungfrú Ísland
Útgefandi: Benedikt bókaútgáfa

Bergsveinn Birgisson
Lifandilífslækur
Útgefandi: Bjartur

Gerður Kristný
Sálumessa
Útgefandi: Mál og menning

Hallgrímur Helgason 
Sextíu kíló af sólskini
Útgefandi: JPV útgáfa

Hannes Pétursson   
Haustaugu
Bókaútgáfan Opna

Dómnefnd skipuðu:

Bergsteinn Sigurðsson, Ragnhildur Richter og Steingrímur Þórðarson, formaður nefndar.

Nov18

Bókatíðindi komin út

Höfundur Félag íslenskra bókaútgefenda

Bókatíðindi komin út

Dreifingu er nú lokið á Bókatíðindum 2018.

Bókatíðindum er ekki dreift til þeirra sem hafna fjölpósti með þar til gerðum merkingum en þeim og öllum öðrum er velkomið að  hafa samband við skrifstofu félagsins og óska eftir að fá Bókatíðindin send sérstaklega. Senda þarf beiðni á fibut@fibut.is með upplýsingum um nafn, heimilisfang og póstnúmer.

Einnig má skoða Bókatíðindin á rafrænu formi hér: Bókatíðindi

Oct25

MÍB - opið fyrir umsóknir um þýðingastyrki

Höfundur Félag íslenskra bókaútgefenda

Oct17

Bjartsýnisbyr fyrir íslenskar bækur

Höfundur Félag íslenskra bókaútgefenda

Formaður FÍBÚT skrifar um frumvarp Lilju Alfreðsdóttur, um stuðning við útgáfu bóka á íslensku

Bjartsýnisbyr fyrir íslenskar bækur

Í tæp 130 ár hefur Félag íslenskra bókaútgefenda staðið vörð um hagsmuni þeirra sem vilja efla bókmenningu og bóklestur. Svarið við spurningunni um hve miklu máli bækur og bókmenning skipta okkur sem þjóð, er ekki einfalt heldur margslungið. Hluti af því felst í sjálfsmynd okkar, við höfum löngum gengist upp í því að vera bóka- og sagnaþjóð og viljum vera það áfram. Árið 2011 var Ísland heiðursgestur á bókamessunni í Frankfurt, stærstu bókasýningu heimsins. Kynningin fór fram undir yfirskriftinni „Sögueyjan Ísland‟ og vakti mikla alþjóðlega athygli. Verkefnið var dyggilega stutt af íslenskum stjórnvöldum og skilaði sér meðal annars í verulegri aukningu á þýðingum og útgáfu íslenskra bóka á erlendum tungumálum. Og nú, í október 2018, þegar þessari árlegu bókamessu er nýlokið vakti sú ákvörðun stjórnvalda á Íslandi að styðja við útgáfu íslenskra bóka með allt að 25% endurgreiðslu á beinum útgáfukostnaði, einnig verðskuldaða athygli.

Lítum aðeins nánar á hvað liggur að baki því að Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, leggur fram stjórnarfrumvarp til stuðnings íslenskri bókaútgáfu. Það er óumdeilt að sölusamdráttur í greininni er samkvæmt tölum frá Hagstofunni 40% á síðustu 10 árum. Samdrátturinn yfir þetta tímabil er viðvarandi og ekkert sem bendir til annars en að hann muni halda áfram, verði ekkert að gert. Einnig er það óumdeilt að staða námsbókaútgáfu á Íslandi er grafalvarleg þar sem skortur á nýju og uppfærðu námsefni er farinn að skapa vandamál í ýmsum greinum. Bókaútgáfa, sem ein af lykilstoðum íslenskrar menningar, hefur mikilvægu hlutverki að gegna í þróun íslenskrar tungu og þegar kemur að því að efla læsi. Þessi mikilvægu verkefni okkar eru í ákveðinni hættu sökum þessa samdráttar. Einnig er raunveruleg hætta á því að sú þekking og reynsla sem nú er til staðar í okkar atvinnugrein, hverfi og leiti annað. Við erum komin að þolmörkum þess hve mikinn samdrátt greinin þolir, án þess að undirstöðurnar hreinlega hrynji. Sjálfsmynd íslenskrar bókaútgáfu er líka í ákveðinni kreppu, en hún hefur í gegnum árin verið rekin af bjartsýni, hugsjón og stórhug. Enda gengur það kraftaverki næst að hægt sé að reka metnaðarfulla bókaútgáfu hér á landi, þvert á markaðslegar forsendur um lágmarksstærð málssamfélags.  

Frumvarpið er mikilvægt skref í þá átt að blása bjartsýnisbyr í trosnandi segl bókaútgefenda, stuðla að meira rými fyrir sköpun höfunda, auka fjölbreytni og snúa við þessari neikvæðu þróun. Aðgerðin miðar að því að gera útgefendur betur í stakk búna til að mæta auknum kröfum og margþættum þörfum nútíma lesenda, með betra úrvali og meiri fjölbreytni, ekki síst þegar kemur að útgáfu barna- og ungmennabóka.

Nú er spennandi árstími framundan, jólabókaflóðið, sem erlendir fjölmiðlar þreytast ekki á að fjalla um, er skollið á og nýjar íslenskar bækur streyma í verslanir. Staða bókarinnar á íslenskum jólagjafamarkaði er enn sterk, sölusamdrátturinn hefur að mestu verið utan við þennan helsta sölutíma ársins. En það er ekki nóg að gefa út margar bækur, við þurfum líka að lesa þær. Við þurfum að tala meira um bækur, rétta börnum bækur og lesa fyrir þau, hlusta á fleiri bækur – gefa þær og þiggja. Það byrjar allt hjá á okkur sjálfum. Finnum tíma til að njóta þess að lesa.

Það er afar viðeigandi að á næsta ári, þegar Félag íslenskra bókaútgefenda fagnar 130 ára afmæli, ætli stjórnvöld að færa þjóðinni þennan veglega stuðning við útgáfu bóka á íslensku. Framtíðin mun dæma um hversu mikilvægt þetta umfangsmikla og metnaðarfulla framtak stjórnvalda verður í sögu bókaútgáfu á Íslandi. En eitt er víst að það er sannarlega tilefni til bjartsýni á að aðgerðirnar leiði til góðs fyrir íslenska lesendur og alla þá sem með einum eða öðrum hætti koma að útgáfu bóka á íslensku.

Heiðar Ingi Svansson

Formaður Félags íslenskra bókaútgefenda

Oct09

Yfirlýsing frá stjórn Félags íslenskra bókaútgefenda

Höfundur Félag íslenskra bókaútgefenda

,,Stjórnarfrumvarp mennta- og menningarmálaráðherra, Lilju Alfreðsdóttur, um stuðning við bókaútgáfu felur í sér mikilvæg tíðindi fyrir íslenska bókmenningu. Með því er staðfestur sá vilji ráðherra og stjórnvalda að sporna gegn þeim samdrætti sem orðið hefur á sölu íslenskra bóka á liðnum árum og auka lestur þjóðarinnar. Vandi bókaútgáfunnar er reifaður ítarlega og boðið upp á lausn sem er líkleg til þess að gagnast þeim sem með einum eða öðrum hætti tengjast útgáfu íslenskra bóka.

Í frumvarpinu er byggt á reynslu af sama fyrirkomulagi fyrir íslenska kvikmyndagerð og tónlist. Má þar vísa í úttekt sem Hagfræðistofnun Háskóla Íslands gerði árið 2015 á jákvæðum hagrænum áhrifum endurgreiðslufyrirkomulags á kvikmyndagerð á Íslandi. Aðstandendur kvikmyndagerðar geta einnig vitnað um hversu virðisaukandi áhrif endurgreiðslufyrirkomulagið hefur haft á þá sem starfa í greininni. Stjórn Félags íslenskra bókaútgefenda telur að jákvæð áhrif muni einnig skila sér með sambærilegum hætti til þeirra sem starfa við bókaútgáfu.

Þetta er fagnaðarefni fyrir þá sem starfa að útgáfu íslenskra bóka og ekki síður lesendur, sem þarfnast fjölbreyttrar og kraftmikillar útgáfu árið um kring. Stjórnvöld staðfesta með frumvarpinu menningarlegt mikilvægi bókaútgáfu, meðal annars við ræktun og verndun íslenskunnar. Við teljum aðgerðina líklega til þess að skila góðum árangri, íslenskri þjóð og tungu til heilla.“

Samþykkt á stjórnarfundi þann 3. október 2018.

Heiðar Ingi Svansson, formaður

<<  1 2 3 [45 6 7 8  >>