Móttaka efnis í Bókatíðindi 2018

Félag íslenskra bókaútgefenda mun að venju standa að útgáfu Bókatíðinda, sem dreift verður á öll heimili, auk þess sem bókaverslanir nota ritið við sölustarfsemi sína og bókasöfn við upplýsingar og innkaup. Útgáfudagur og dreifing er fyrirhuguð í 3. viku nóvember 2018.

Verð á kynningu er kr. 26.990,- + vsk.  Lokafrestur til skráningar er 17. október nk.

Greiða þarf staðfestingargjald fyrir bókakynningar, kr. 20.000,- fyrir 18. október nk. og fullnaðaruppgjör í síðasta lagi 21. desember 2018 nema um annað sé samið.

  • Bankareikningur vegna staðfestingargjalds: 0515-26-560978.
  • Kt: 560977-0269
  • Senda kvittun á benk@fibut.is

BÓKATÍÐINDI 2018 - SKRÁNING

Hver útgefandi fær sérstakt aðgangsorð að gagnagrunni Bókatíðinda hjá skrifstofu Félags íslenskar bókaútgefenda. Aðgangsorð frá fyrri árum er áfram í gildi.  Nýjir útgefendur eru beðnir um að senda upplýsingar um nafn útgáfu, heimilisfang, póstnúmer, síma, netfang, heimasíðu og kennitölu greiðanda á netfangið fibut@fibut.is með beiðni um inngang í Bókatíðindagrunn. 

Útgefandi skráir allan texta og vistar kápumyndir beint inn í gagnagrunn Bókatíðinda. Slóðin er: http://bokatidindi.oddi.is/

Hér má sjá sýnishorn af því hvernig skráningarformið lítur út. Þegar búið er að skrá og setja inn mynd er einfaldlega smellt á „vista/skrá nýja bók" sem er vistunarhnappur.  Hægt er að breyta skráningu fram að lokadegi innskráningar, jafnvel þótt hakað sé í reitinn „skráningu lokið".  Hægt er að tvískrá bók í mismunandi flokka ef við á, þannig að hún birtist í fleiri en einum kafla Bókatíðinda. Rukkað er fyrir hverja birtingu.  Skilyrði fyrir birtingu bókakynninga er að útgefandi hafi gert upp allar eldri skuldir við félagið.

 

 

Varðandi frágang kápumynda fyrir bókagrunn bókatíðinda 2018:
Kápumyndir skal senda inn gegnum skráningarkerfið en ef það er ekki hægt af einhverjum ástæðum er möguleiki á að senda þær inná netfang Bókatíðinda: bokatidindi@oddi.is 

Myndir þurfa að vera 804 pixlar á breidd (6,8 cm), í 300 dpi (pixels/inch) og í RGB, sem JPG. Mikilvægt er að senda einungis forsíðumynd kápu. Ekki innábrot og skurðarmerki.

Eftirfarandi reglur gilda um myndir sem sendar eru með tölvupósti:
Heiti myndar þarf að byrja á því númeri sem verkið fær í bókagrunni (fremsti dálkur í lista). Notandi má bæta við stuttri lýsingu ef hann vill, með undirstrik á milli númersins og nafnsins.
Dæmi: 0546_nafn bokar.jpg Að skráningu lokinni skal senda tölvupóst á bokatidindi@oddi.is  og tilgreina númer allra kápumynda sem sendar hafa verið með tölvupósti.

 

BÓKATÍÐINDI 2018 - ÚTLIT

Bókatíðindi verða með sama sniði og í fyrra, í A4 broti. Á hverri síðu verða 10 jafnstórar bókakynningar, 9,25 cm á breidd og 5,45 cm á hæð. Fast pláss verður fyrir hverja kynningu, lengd kynningartexta má vera um það bil 350 slög með bilum. Mögulegt er að kynna fleiri en einn titil í kynningu, t.d. ef um bókaflokk er að ræða. Tveimur eða fleiri kápumyndum er þá þjappað saman og einn kynningartexti saminn um bókaflokkinn. Þetta kallast  hópskráning, nánari upplýsingar fást á skrifstofu FIBUT og sjá má dæmi í eldri Bókatíðindum.   

Útgáfuform verða áfram merkt með sérstökum táknum þannig að hver titill er aðeins kynntur einu sinni og þar tekin fram þau útgáfuform sem fáanleg eru. Í þeim tilfellum sem mismundandi útgefendur gefa út mismunandi form sömu bókar, t.d. prentaða og hljóðbók, förum við þess á leit að útgefendur skipti með sér kostnaði við birtingu. Raf- og hljóðbækur verða listaðar sérstaklega aftast í titlaskrá líkt og áður.  

Í skráningu er EKKI lengur sjálfkrafa gert ráð fyrir því að aðstandendur bóka séu íslenskir. Mikilvægt að haka í reitinn „íslenskur“ ef aðstandandi bókar er íslenskur og „erlendur“ ef aðstandandi er erlendur. Erlendur höfundur mun þá raðast í höfundaskrá eftir eftirnafni. Vegna útgefendaskrár aftast er beðið um póstfang, símanúmer og netfang útgefanda, kennitala er ekki birt. Frekari upplýsingar er að finna á hjálparvef bókagrunnsins eða hjá starfsfólki skrifstofu FIBUT.       

Eingöngu verða kynningar á nýjum bókum í Bókatíðindum, þ.e. bókum með nýju ISBN númeri, útgefnar á þessu ári. Auk kynningartexta og myndar af kápu, birtist nafn bókar, höfundar, þýðanda eða upplesara þar sem við á, og útgefanda og greint er frá blaðsíðufjölda eða hljóðbókalengd. Mikilvægt er að skrá ISBN númer þó þau komi ekki fram í prentútgáfu Bókatíðinda. Bókum innan hvers flokks verður raðað í einfalda stafrófsröð titla. Flokkar verða óbreyttir frá 2017.