Reglugerð um verðlaun

 

Íslensku bókmenntaverðlaunin

sem forseti Íslands afhendir

Stofnuð af Félagið íslenskra bókaútgefenda í tilefni 100 ára afmæli þess, 12. Janúar 1989.

 

I. Tilgangur

1. grein.
Tilgangur Íslensku bókmenntaverðlaunanna er að styrkja stöðu frumsaminna íslenskra bóka á íslenskri tungu, efla vandaða bókaútgáfu, auka umfjöllun um bókmenntir í fjölmiðlum og hvetja almenna lesendur til umræðna um bókmenntir.

 II. Val bóka til samkeppni

2. grein.
Hver sá sem gefur út prentaðar bækur sem eru til sölu á almennum markaði, á þess kost að tilnefna þær af útgáfubókum sínum sem hann óskar að komið til álita samkvæmt nánari reglum sem stofnendur verðlaunanna setja samhliða þessari reglugerð og að frágengnum þátttökukostnaði. Dómnefndareintök af fullfrágengnum útgáfuverkum eru hluti af þátttökukostnaði og ekki endurkrefjanleg. Verðlaunin skiptast í þrjá flokka, skáldverk, fræðibækur og rit almenns efnis og barna- og ungmennabækur. Við tilnefningu skal tekið fram hvort um er að ræða:
  1. Frumsamin íslensk skáldverk, laust mál eða ljóð, fyrir fullorðna
  2. Önnur íslensk ritverk, fræðirit, frásagnir, handbækur fyrir fullorðna og hver þau verk sem að jafnaði teljast ekki skáldskapur.
  3. Frumsamin íslensk verk fyrir börn og ungmenni.

III. Val athyglisverðustu bóka ársins

3. grein.
Um mánaðamót nóvember/desember verða valdar fimmtán athyglisverðustu bækur útgáfuársins, fimm úr hverjum flokki. Níu dómarar, þrír fyrir hvern flokk, annast valið. Félag íslenskra bókaútgefenda skipar dómnefndir og tilnefnir formenn þeirra.. Eigi skulu sömu menn starfa sem dómarar lengur en þrjú ár samfleytt og líða skulu a.m.k. tvö ár frá dómarastörfum áður en menn koma til þeirra á ný.
 
IV. Val verðlaunabóka ársins
4. grein.
Lokadómnefnd skal skipuð  formönnum þeirra þriggja nefnda er áður er getið, auk formanns dómnefndar Blóðdropans og fulltrúa skipuðum af forseta Íslands og er sá jafnframt formaður lokadómnefndar. Dómnefndin velur eina bók úr hverjum flokki til verðlauna sem forseti Íslands afhendir við hátíðlega athöfn eigi síðar en 15. febrúar

V. Verðlaunafé

5. grein.
Verðlaunafjár er aflað samkvæmt stofnskrá settri af Félagi íslenskra bókaútgefenda.
 

VI. Um merki verðlaunanna

6. grein.
Tilnefndar bækur hljóta rétt til þess að bera tilnefningamerki verðlaunanna og verðlaunabækur sömuleiðis rétt til að bera verðlaunamerkið. Ekki er leyfilegt að birta merki verðlaunanna án snertingar við bókakápu þeirrar bókar sem hlotið hefur tilnefningu eða verðlaun.

 

Samkv. stjórnarsamþykkt  30. ágúst 2023
Reglur frá 1990 með áorðnum breytingum 1991, 1993, 2000, 2002,2013 og 30. ágúst og 25. október 2023