
Erlendur gestahöfundur bókahátíðarinnar í ár er írska skáldkonan Sheila Armstrong. Hún er höfundur smásagnasafnsins How To Gut A Fish sem kom út árið 2022 og skáldsögunnar Falling Animals sem kom út ári síðar. Hún hefur verið tilnefnd til Írsku bókmenntaverðlaunanna, The Irish Book Awards, Írsku rithöfundafélagsverðlaunanna, Society of Authors Awards, Kate O’Brien verðlaunanna, Edge Hill verðlaunanna og RSL Ondaatje verðlaunanna. Þá var skáldsagan Falling Animals valin til lesturs í bókaklúbbnum Between the Covers á BBC 2 í nóvember 2023. Sheila starfaði við bókaútgáfu í 10 ár áður en hún sneri sér að ritun eigin verka.

Sheila Armstrong hlaut sérstaka viðurkenningu Bókmenntaverðlauna Evrópusambandsins í ár fyrir bók sína, Falling Animals og heimsækir Bókahátíðina í Hörpu í boði verðlaunanna og fyrir tilstuðlan sendinefndar ESB á Íslandi. Þetta er í fyrsta skipti sem verðlaunahöfundur Bókmenntaverðlauna Evrópusambandsins sækir Ísland heim með líkum hætti og okkar verðlaunahöfundum hefur boðist að taka þátt í bókmenntaviðburðum víðsvegar í Evrópu til að kynna verk sín. Fjórir íslenskir höfundar hafa hlotið verðlaunin á liðnum árum. Það eru þau Oddný Eir Ævarsdóttir, Halldóra K. Thoroddsen, Ófeigur Sigurðsson og María Elísabet Bragadóttir. Þetta er einnig í fyrsta skipti sem Bókahátíðin í Hörpu tekur á móti erlendum gestahöfundi.
