Starfsreglur

Íslensku bókmenntaverðlaunin

Starfsreglur vegna framlagðra verka og dómnefnda

 

Vegna álitamála sem upp hafa komið er rétt að taka eftirfarandi fram:

 

Framlögð verk

  • Skilyrði til framlagningar bókmenntaverks er að frumútgáfa eða verulega breytt endurútgáfa hafi komið út á líðandi útgáfuári, sé skrifað á íslensku og fáanlegt til kaups og eignar á almennum markaði.
  • Heimilt er að tilnefna öll frumsamin íslensk ritverk ársins, óháð því hvort þau eru hluti einhverrar ritraðar eða ekki. Dómnefnd metur það verk sem lagt er fram en ekki ritröðina í heild sinni.
  • Heimilt er að tilnefna bækur sem að nafninu til teljast endurútgáfur, svo fremi sem veruleg nýsköpun hafi átt sér stað vegna nýju útgáfunnar. Bækur sem eru endurprentaðar eða endurútgefnar með minniháttar breytingum eða lagfæringum koma ekki til greina.
  • Heimilt er að tilnefna bækur þótt höfundur sé látinn, svo fremi sem um frumútgáfur sé að ræða, eða endurútgáfur sem höfundur annaðist sjálfur og sem uppfylla ofannefnd skilyrði.

 

Dómnefndir

  • Við val á tilnefningum og verðlaunabókum skal dómnefnd hafa að leiðarljósi að verið er að leita að athyglisverðustu bókum ársins, það er að segja bækur sem vekja forvitni út af gæðum, efni, framsetningu eða öðru því er dómnefnd metur að kveiki áhuga hins almenna lesanda. Sjá einnig 1. kafla, 1. grein í reglum um verðlaunin.
  • Stjórn Félags íslenskra bókaútgefenda leggur áherslu á að dómnefndum beri að líta á allar gerðir bóka af fullri alvöru og að hvert verk skuli fá raunhæft mat á eigin forsendum.
  • Dómnefndafólk skal gæta trúnaðar um störf sín og hvorki ræða störf nefndanna, umsagnir annarra nefndarmanna né nefna eða birta myndir af þeim verkum sem lögð voru fram. Jafnframt er farið fram á það að dómnefndarfólk birti hvergi opinberlega gagnrýni sína um framlagðar bækur.
  • Árið 2022 hófst samstarf með glæpasagnaverðlaununum Blóðdropanum. Bæði tilnefninga- og verðlaunaathafnir Blóðdropans eru samhliða athöfunum Íslensku bókmenntaverðlaunanna, verðlaunaupphæðin jafnhá en verðlaunagripurinn annar. Félag íslenskra bókaútgefenda tilnefnir tvo dómnefndarfulltrúa í nefndina og Hið Íslenska glæpafélag þann þriðja. Félag íslenskra bókaútgefenda skipar formann nefndarinnar og er hann jafnframt í lokadómnefnd sem velur verðlaunahafa Íslensku bókmenntaverðlaunanna og Blóðdropans.

 

Ofanskráðar starfsreglur gilda áfram fyrir dómara samkvæmt þeim reglum um Íslensku bókmenntaverðlaunin sem stjórn Félags íslenskra bókaútgefenda samþykkti árið 1990 með áorðnum breytingum frá 1991, 1993, 2000, 2002, 2013 og 30. ágúst og 25. október 2023