Nov26
Tilnefningar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og Blóðdropans 2024
Tilnefningar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og Íslensku glæpasagnaverðlaunanna Blóðdropans voru kynntar við hátíðlega athöfn í Eddu, húsi Íslenskunnar þann 27. nóvember.
Eftirfarandi höfundar eru tilnefndir í flokki skáldverka:
Arnaldur Indriðason
Ferðalok
Útgefandi: Vaka Helgafell
Einstaklega vel unnin söguleg skáldsaga sem dregur upp nýja og ferska sýn af skáldinu kunna. Saman við ljóð Jónasar og síðustu daga fléttast minningabrot úr fortíð hans í meistaralega vel skrifuðum texta. Léttur og fljótandi stíll málar upp mynd sem lætur engan ósnortinn.
Jón Kalman Stefánsson
Himintungl yfir heimsins ystu brún
Útgefandi: Benedikt bókaútgáfa
Sagt frá magnþrungnum atburðum í sögu þjóðarinnar í upphafi 17. aldar með nýjum hætti og þeir túlkaðir með hliðsjón af hugmyndum vísindamanna þess tíma um heiminn. Lifandi og frumleg persónusköpun byggir á þekktum sögulegum persónum. Leiftrandi frásagnargleði með öguðum en liprum texta og sterkum skírskotunum til samtímans.
Gerður Kristný
Jarðljós
Jarðljós
Útgefandi: Mál og menning
Áleitin ljóð sem fjalla um mannleg örlög í nútíð og fortíð þar sem grimm alvara og lævís kímni vegast á. Í kaldhömruðum textanum er hljómgaldur og taktur tungunnar nýttur til fulls og meitlað myndmál túlkar heitar tilfinningar.
Birgitta Björg Guðmarsdóttir
Moldin heit
Útgefandi: Drápa
Með léttum og hrífandi ritma er lesendum boðið upp í dans. Smám saman brýst út tilfinningaþrungin frásögn í listilega uppbyggðri skáldsögu. Listrænn en jafnframt aðgengilegur texti sem ætti að höfða til allra.
Kristín Ómarsdóttir
Móðurást: Draumþing
Útgefandi: Mál og menning
Sögulegur frásagnagaldur sem hverfist um unga stúlku sem verður að konu á sumarsólstöðum. Nýstárlegur og óvenjulegur frásagnarstíll. Hrífandi fíngerður og ljóðrænn glitvefur ofinn af meistara höndum.
Dómnefnd skipuðu:
Gunnlaugur Ástgeirsson, Kris Gunnars og Viðar Eggertsson sem jafnframt var formaður dómnefndar.
Guðjón Friðriksson
Börn í Reykjavík
Útgefandi: Mál og menning
Vandað og tímabært verk sem veitir innsýn í hvernig þróun samfélagsins hafði áhrif á aðbúnað, menntun og lífshætti barna og hvernig þau öðluðust nýja stöðu sem fullgildir þjóðfélagsþegnar í gegnum þessar breytingar. Höfundur setur umfangsmikið verk fram á fróðlegan og skemmtilegan hátt, þar sem umhyggja gagnvart viðfangsefninu skín víða í gegn. Fallegar myndir bókarinnar gefa aukin hughrif og gera bókina aðgengilega fyrir alla aldurshópa.
Ingibjörg Björnsdóttir
Listdans á Íslandi
Útgefandi: Hið íslenska bókmenntafélag
Glæsilegt og áhugavert verk þar sem höfundur miðlar af mikilli þekkingu og innsýn sögu þessarar fallegu og mikilvægu listgreinar á Íslandi, allt frá upphafi hennar. Þróun hennar í áranna rás er lýst og hvernig henni óx ásmegin fyrir tilverknað þeirra sem ruddu brautina af framsýni, þrautseigju, listrænum metnaði og hugrekki.
Anna Dröfn Ágústsdóttir
Óli K.
Útgefandi: Angústúra
Glæsilegt verk um einn helsta frumkvöðul í þróun fjölmiðla á Íslandi. Ljósmyndir Óla K. voru áhrifamiklar og spegluðu samtímann, með bæði næmni listamannsins og nákvæmni fréttamannsins. Heimildavinna og texti höfundar gefa myndunum aukið vægi og setja sögu Íslands á 20. öld, hversdagslífs jafnt sem stórviðburða, í mikilvægt samhengi. Verkið undirstrikar vægi ljósmynda í söguvitund okkar, þegar þær eru oftar en ekki samofnar hugmyndum okkar og skynjun um lífið og tilveruna á öldinni sem Ísland óx úr grasi.
Þórir Óskarsson
Svipur brotanna - Líf og list Bjarna Thorarensen
Útgefandi: Hið íslenska bókmenntafélag
Vel unnið og áferðarfallegt verk þar sem feikilegur fróðleikur er dreginn saman og settur fram á skýran og áhugaverðan hátt um þetta margslungna höfuðskáld okkar Íslendinga sem að mörgu leyti var á undan sinni samtíð. Verkið gefur einstaka sýn inn í líf hans og skoðanir og víðfeðm áhrif hans á mörgum sviðum þjóðfélagsins og gefur góðan vitnisburð um pólitískan og bókmenntalegan hugsunarhátt öndverðrar 19. aldar.
Árni Heimir Ingólfsson
Tónar útlaganna - Þrír landflótta tónlistarmenn sem mótuðu íslenskt menningarlíf
Útgefandi: Hið íslenska bókmenntafélag
Einstakt verk um einstaka listamenn, sem lögðu öðrum fremur grunninn að því tónlistarlífi sem við njótum í dag á Íslandi. Ástríða höfundar fyrir viðfangsefninu er áþreifanleg, sem mikil og metnaðarfull heimildavinna ber vitni um. Verk sem á stöðugt erindi við okkur sem menningarþjóð og um leið áminning um mikilvægi og ávinning þess að taka vel á móti fólki sem þarf á aðstoð að halda.
No video selected.