Dec01

Bókmenntaverðlaunatilnefningar á Kjarvalsstöðum

Höfundur Félag íslenskra bókaútgefenda

Íslensku bókmenntaverðlaunin og Íslensku glæpasagnaverðlaunin Blóðdropinn

Bókmenntaverðlaunatilnefningar á Kjarvalsstöðum

Tilnefningar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2022 voru kynntar 1. desember kl. 17 á Kjarvalsstöðum.

Íslensku bókmenntaverðlaunin 2022 verða afhent um mánaðamótin janúar-febrúar á komandi ári af forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessyni. Formenn dómnefndanna fjögurra, Guðrún Steinþórsdóttir, Kamilla Guðmundsdóttir, Sigríður Kristjánsdóttir og Skúli Pálsson munu koma saman ásamt forsetaskipuðum formanni, Gísla Sigurðssyni og velja einn verðlaunahafa úr hverjum flokki. Verðlaunaupphæðin er ein milljón króna fyrir hvert verðlaunaverk. Félag íslenskra bókaútgefenda kostar verðlaunin.

 

Eftirfarandi höfundar eru tilnefndir til Íslensku glæpasagnaverðlaunanna Blóðdropans:

Eva Björg Ægisdóttir

Strákar sem meiða

Útgefandi: Veröld

Áhugaverð sakamála saga sem tekur á ljótum samfélagslegum vandamálum. Hefndin ræður ríkjum þegar draugur fortíðar bankar upp á. Höfundur skapar raunsæja mynd þar sem auðvelt er að tengjast persónum og atburðum.

 

Lilja Sigurðardóttir

Drepsvart hraun

Útgefandi: JPV útgáfa

Æsispennandi og skemmtileg saga sem heldur lesandanum í gíslingu. Höfundur dansar fína línu á milli raunveruleikans, vísindaskáldskapar og spennusögu.

 

Ragnar Jónasson og Katrín Jakobsdóttir

Reykjavík

Útgefandi: Veröld

Spennandi söguleg glæpasaga með óvæntum útspilum. Flæði bókarinnar er gott og samstarf höfundanna gengur mjög vel upp.

 

Skúli Sigurðsson

Stóri bróðir

Útgefandi: Drápa

Ný rödd hefur kveðið sér hljóðs í heimi íslenskra glæpasagna og það af fullum krafti. Margslungin bók þar sem fjölmargar sögur fléttast saman frá ólíkum sjónarhornum. Bókin er raunsæ og tekur á málefnum sem hafa verið mikið í umræðunni.

 

Stefán Máni

Hungur

Útgefandi: Sögur útgáfa

Hrottaleg glæpasaga sem fær lesandann til að staldra við og hugleiða hvort hann eigi að lesa áfram. Breyskleikar og áskoranir sögupersóna tvinnast saman við spennandi söguþráðinn.

 

Dómnefnd skipuðu:

Sigríður Kristjánsdóttir, formaður dómnefndar, Áslaug Óttarsdóttir og Einar Eysteinsson.

 

Eftirfarandi höfundar eru tilnefndir í flokki barna- og ungmennabóka:

Arndís Þórarinsdóttir

Kollhnís

Útgefandi: Mál og menning

Áhugaverð, þörf og marglaga saga. Aðalpersónan tekst á við flóknar áskoranir og lesandinn er vakinn til umhugsunar um mikilvæg málefni á borð við einhverfu, einelti og ósætti innan fjölskyldu. Textinn flæðir mjög vel, húmorinn er sjaldnast langt undan og rödd sögumannsins skýr og ákveðin þótt hann lesi ekki alltaf rétt í aðstæður.

 

Elísabet Thoroddsen

Allt er svart í myrkrinu

Útgefandi: Bókabeitan

Vel skrifuð frásögn sem fjallar um hinsegin ástir, dulræn öfl, andaglas og drauga. Atburðarásin er spennandi og söguþráðurinn úthugsaður. Persónur þurfa að takast á við flókin verkefni en í því skyni er mikilvægt að þau öðlist skilning á fortíðinni, vinni saman og treysti á sjálfan sig. Sagan er glæsileg frumraun höfundar. 

 

Eiríkur Örn Norðdahl og Elías Rúni, myndhöfundur

Frankensleikir

Útgefandi: Mál og menning

Áhugaverð og nýstárleg saga sem sýnir jólasveinana í nýju og óvæntu ljósi. Persónusköpunin er forvitnileg en við sögu koma uppátækjasamir krakkar, kassalaga foreldrar og niðurbútaðir jólasveinar. Í verkinu fléttast listavel saman kímni, fantasía og hrollvekja þannig að úr verður frásögn sem er allt í senn fyndin, óhugnanleg og grípandi. 

 

Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir

Héragerði

Útgefandi: Salka

Kostuleg saga þar sem hversdagurinn er gerður að ævintýri. Með gamansemi og næmni fyrir mannlegum tilfinningum er varpað ljósi á flókin fjölskyldubönd, vandræðalegar uppákomur og ríkulega sköpunarhæfni barna. Vandaðar myndlýsingar styðja vel við frásögnina og saman mynda þau listræn heild sem höfðar til lesenda á öllum aldri.  

 

Sigrún Eldjárn

Ófreskjan í mýrinni

Útgefandi: Mál og menning

Stórskemmtileg frásögn sem markast af spennu, dulúð og kátínu. Unnið er á frumlegan hátt með íslenska þjóðtrú. Textinn vísar jafnt í fortíð og nútíð, heimsbókmenntir og dægurmenningu þannig að úr verður snjöll og velheppnuð blanda. Ríkulegar og fallegar myndlýsingar auðga söguna og sveipa hana töfraljóma.

 

Dómnefnd skipuðu:

Guðrún Steinþórsdóttir, formaður dómnefndar, Gunnar Björn Melsted og Helga Ósk Hreinsdóttir.

 

Eftirfarandi höfundar eru tilnefndir í flokki fræðibóka og rita almenns efnis:

Árni Snævarr

Ísland Babýlon : Dýrafjarðarmálið og sjálfstæðisbaráttan í nýju ljósi

Útgefandi: Mál og menning

Skemmtileg frásögn um lítt þekktan kafla í sögunni sem sýnir sjálfstæðisbaráttuna frá nýju sjónarhorni.   Höfundur leitast við að setja Ísland í samhengi við byltingasögu Evrópu. Þetta er vandlega unnið verk sem fær lesendur til að endurmeta stöðu Íslands í umheiminum.

 

Kristín Svava Tómasdóttir

Farsótt : Hundrað ár í Þingholtsstræti 25

Útgefandi: Sögufélag

Vandað verk sem veitir innsýn í þróun heilbrigðis- og velferðarmála á Íslandi. Sagan er vel skrifuð, út frá sjónarhorni húss sem gegndi ólíkum en mikilvægum hlutverkum í þróun nútíma samfélags. Margar eftirminnilegar persónur úr öllum þjóðfélagshópum koma við sögu og ríkulegt myndefni styður vel við frásögnina. Falleg og fróðleg bók.

 

Ragnar Stefánsson

Hvenær kemur sá stóri? Að spá fyrir um jarðskjálfta

Útgefandi: Skrudda

Stórfróðlegt yfirlitsrit um jarðskjálfta sem lærðir og leikir munu hafa gagn og gaman af. Hér birtist afrakstur áratuga rannsókna eftir einn af okkar helstu sérfræðingum um efnið og er hann bjartsýnn á að unnt verði að segja fyrir um jarðskjálfta. Með vönduðum texta og lýsandi skýringarmyndum auðveldar höfundur almenningi skilning á jarðskjálftum.

 

Stefán Ólafsson

Baráttan um bjargirnar : Stjórnmál og stéttabarátta í mótun íslensks samfélags

Útgefandi: Háskólaútgáfan

Í bókinni greinir höfundur efnahagslíf, völd og stjórnmál á Íslandi með vandlega rökstuddum málflutningi. Greiningin byggir á umfangsmiklum gögnum sem sett eru fram í skýrum og lýsandi myndritum þar sem þróun á íslensku samfélagi er sett í alþjóðlegt samhengi. Slíkt rit er nauðsynlegt fyrir stjórnmálaumræðu á Íslandi.

 

Þorsteinn Gunnarsson

Nesstofa við Seltjörn : Saga hússins, endurreisn og byggingarlist

Útgefandi: Þjóðminjasafn Íslands  

Hús okkar fyrsta landlæknis, sem byggt var á árunum 1761-1767 á sér merkilega sögu. Ritið á erindi til allra sem er umhugað um húsverndun og varðveislu menningararfsins. Líkt og við byggingu og endurgerð Nesstofu hefur höfundur verksins nostrað við hvert smáatriði. Með vandaðri framsetningu mynda lesendur sterk tengsl við húsið, íbúa þess, starfsemi og sögu.

 

Dómnefnd skipuðu:

Skúli Pálsson, formaður dómnefndar, Margrét Auðunsdóttir og Sara Hrund Helgudóttir.

 

Eftirfarandi höfundar eru tilnefndir í flokki skáldverka:

Auður Ava Ólafsdóttir

Eden

Útgefandi: Benedikt bókaútgáfa

Grípandi samtímasaga um lífið, áskoranir þess en ekki síður fegurð hversdagsleikans. Verk sem ávarpar mikilvægi þess að rækta nærumhverfi sitt á sama tíma og huga þarf að náunganum. Höfundur fangar grósku mannlegs eðlis af einstakri næmni. Sagan endurspeglar á vandaðan hátt mismunandi kima samfélagsins og mótbyr daglegs lífs. Frásögn sem vekur hughrif og samkennd lesandans en skilur jafnframt eftir áleitnar spurningar.

 

Dagur Hjartarson

Ljósagangur

Útgefandi: JPV útgáfa

Höfundur nær á einstakan hátt að skapa verk sveipað eiginleikum ljóðs og skáldsögu. Í reykvískum veruleika fléttast lögmál eðlisfræðinnar og ástarinnar saman á óvenjulegan hátt þar sem lesandinn hittir fyrir ólíklegar hetjur og skúrka. Spennan rís taktfast með framvindu sögunnar og heldur lesandanum hugföngnum og fullum eftirvæntingar. Sagan er frumleg, spennandi og í takt við stílbrögð ljóðlistarinnar skilur hún eftir rými til hugleiðinga.

 

Kristín Eiríksdóttir

Tól

Útgefandi: JPV útgáfa

Áhrifamikið samtímaverk um napran raunveruleika sem mörgum er hulinn. Framsetningin er frumleg og tekst að vera nærgætin en stuðandi á sama tíma. Lesanda er gefin innsýn í breyskleika einstaklingsins í samfélagi sem oft er vanbúið til þess að bregðast við. Án þess að setja sig í dómarasætið nær höfundur að varpa fram spurningum sem skilja mikið eftir sig. Marglaga verk sem lætur engan ósnortinn.

 

Pedro Gunnlaugur Garcia

Lungu

Útgefandi: Bjartur

Töfrandi og vel fléttað verk sem teygir anga sína vítt og breitt í tíma; fullt af frásagnargleði og fjölskrúðugum persónum. Sagan rýnir í samfélagið á frumlegan hátt þar sem framvinda verksins og afdrif persóna kemur sífellt á óvart. Höfundur heldur vel á þræðinum í ættarsögu sem tekst á við mismunandi viðhorf kynslóða til lífsins og áskorana þess. Verk sem spyr áleitinna spurninga og dvelur lengi hjá lesandanum.

 

Sigríður Hagalín Björnsdóttir

Hamingja þessa heims : Riddarasaga

Útgefandi: Benedikt bókaútgáfa

Höfundur fetar nýja slóð frá fyrri verkum sínum og freistar þess að fylla upp í tímabil Íslandssögunnar sem lítið er vitað um. Vísanir í annála, blæbrigði og stíll skapa metnaðarfullt verk sem skrifað er af virðingu fyrir því liðna, jafnt persónum sem tíðaranda. Það. Það fléttast sömuleiðis saman við málefni samtímans á frumlegan hátt. Úr verður grípandi, heildstætt verk sem fangar athygli lesenda um samfélagið og þróun þess, allt frá fyrri tímum til dagsins í dag.

 

Dómnefnd skipuðu:

Kamilla Guðmundsdóttir, formaður dómnefndar, Andri Yrkill Valsson og Þorvaldur Davíð Kristjánsson.

 

 

Nov22

Bókamessan í Hörpu

Höfundur Félag íslenskra bókaútgefenda

26.-27. nóvember kl. 11 -17

Bókamessan í Hörpu

Bókamessan í Hörpu verður haldin helgina 26-.27. nóvember og er opin frá kl. 11 - 17 báða daga.

Ríflega 30 bókaútgefendur kynna verk sín, höfundar árita og allar nýjustu bækurnar fyrir börnin til að fetta, lesa og setja á óskalistann.

Bókmenntadagskrá verður í Kaldalóni báða dagana og hefst kl. 13 og kl. 15.

 

Oct06

SKRÁNING Í VEF- OG PRENTÚTGÁFU BÓKATÍÐINDA

Höfundur Félag íslenskra bókaútgefenda

SKRÁNING Í VEF- OG PRENTÚTGÁFU BÓKATÍÐINDA

Félag íslenskra bókaútgefenda hefur opnað nýjan gagnagrunn fyrir skráningar á nýjum bókum til birtingar í Bókatíðindum. Lokafrestur til skráningar í prentútgáfuna er liðinn en skráning í rafrænu útgáfuna er opin allan ársins hring fyrir utan vikuna 10.-13. október þegar prentvinnsla fer fram.

Verð pr. kynningu er kr. 12.500 + vsk fyrir skráningu á vefsíðuna. Skráning á vefsíðu verður virk um leið og hún er frágengin. Skráning alls texta og yfirlestur er á ábyrgð útgefanda.

Útgefendur eru beðnir að sækja um aðgang að rafrænum Bókatíðindum á netfangið fibut@fibut.is með upplýsingum um nafn útgáfu, símanúmer, kennitölu, net- og veffangi útgáfu ásamt upplýsingum um nafn eða nöfn þeirra sem bera ábyrgð á skráningu og netföngum þeirra.

 

Sep16

Íslensku bókmenntaverðlaunin og Blóðdropinn

Höfundur Félag íslenskra bókaútgefenda

Tekið er á móti skráningu framlagðra verka til 16. október 2022

Íslensku bókmenntaverðlaunin og Blóðdropinn

Skráning og mótttaka framlagðra verka til Íslensku bókmenntaverðlaunanna er nú hafin.

Verðskrá fyrir framlögð verk:

  • Bækur eða útprent afhent fyrir dagslok 31. október kr. 40.000
  • Bækur eða útprent afhent fyrir dagslok 18. nóvember kr. 60.000

Skráning stendur til 16. október og fer fram hér: Skráning framlagðra verka til Íslensku bókmenntaverðlaunanna

Skila þarf þemur endanlega fullbúnum eintökum framlagðra bóka fyrir dómnefnd. Þetta á einnig við þó að handriti hafi þegar verið komið til dómnefndar sem útprentuðu handriti. Skila þarf þremur fullbúnum eintökum til viðbótar fyrir lokadómnefnd, hljóti bók tilnefningu. Dómnefndareintök eru hluti af þátttökukostnaði og ekki endurkræf. Tekið er við dómnefndareintökum á skrifstofu félagsins, Barónsstíg 5, 2. hæð. 

Nánari upplýsingar á skrifstofu félagsins og hér.

Aug24

Skráning í vef- og prentútgáfu Bókatíðinda 2022

Höfundur Félag íslenskra bókaútgefenda

Skráning í vef- og prentútgáfu Bókatíðinda 2022

Félag íslenskra bókaútgefenda hefur opnað nýjan gagnagrunn fyrir skráningar á nýjum bókum til birtingar í Bókatíðindum. Lokafrestur til skráningar í prentútgáfuna er 9. október en skráning í rafrænu útgáfuna er opin allan ársins hring fyrir utan vikuna 10.-16. október þegar prentvinnsla fer fram.

Verð pr. kynningu er kr. 12.500 + vsk fyrir skráningu á vefsíðuna og kr. 19.500 + vsk fyrir skráningu í prentuðu útgáfuna eða samtals kr. 32.000 án vsk fyrir skráningu bæði á vefsíðu og í prentútgáfu. Skráning á vefsíðu verður virk um leið og hún er frágengin. Skráning alls texta og yfirlestur er á ábyrgð útgefanda.

Útgefendur eru beðnir um að sækja um aðgang að rafrænni skráningu á netfangið fibut@fibut.is með upplýsingum um nafn útgáfu, símanúmer, kennitölu, net- og veffangi útgáfu ásamt upplýsingum um nafn eða nöfn þeirra sem bera ábyrgð á skráningu og netföngum þeirra.

Aug10

Vilt þú starfa í dómnefnd Íslensku bókmenntaverðlaunanna?

Höfundur Félag íslenskra bókaútgefenda

Tekið er á móti umsóknum til og með 21. ágúst nk.

Vilt þú starfa í dómnefnd Íslensku bókmenntaverðlaunanna?

Skráning umsækjenda sem hafa áhuga á að sitja í dómnefnd Íslensku bókmenntaverðlaunanna er hafin. Leitað er eftir fólki á ólíkum aldri með fjölbreyttan bakgrunn og menntun auk mikils tíma til lesturs.

Nánari upplýsingar má finna á umsóknareyðublaðinu hér: UMSÓKNAREYÐUBLAÐ

Jul28

Bókatíðindagrunnurinn opnar aftur 22. ágúst

Höfundur Félag íslenskra bókaútgefenda

Bókatíðindagrunnurinn opnar aftur 22. ágúst

Vegna smíða á nýjum gagnagrunni fyrir Bókatíðindi og yfirfærslu á gögnum úr gamla grunninum yfir í þann nýja, verður lokað fyrir allar skráningar dagana 29. júlí.-21. ágúst. 

Nýja grunninum fylgja ný lykilorð sem bundin eru við veffang hvers notanda. Vinsamlegast sendið netföng þeirra starfsmanna sem eiga að fá aðgang að grunninum ásamt upplýsingum um nafn forlags eða undirforlaga á fibut@fibut.is 

Sama skráning gildir fyrir vef- og prentútgáfu Bókatíðinda en þátttaka í prentútgáfunni er valkvæð. Skráning í prentútgáfu lýkur í kringum 10. október. Skráning í vefútgáfuna stendur yfir árið um kring. Nánari upplýsingar á skrifstofu félagsins.

Mar01

Yfirlýsing frá Félagi íslenskra bókaútgefenda og systurfélögum á Norðurlöndum

Höfundur Félag íslenskra bókaútgefenda

Yfirlýsing frá Félagi íslenskra bókaútgefenda og systurfélögum á Norðurlöndum

“The Danish Publishers Association, The Finnish Publishers Association, the Icelandic Publishers Association, the Norwegian Publishers Association and the Swedish Publishers Association condemn Russia’s attack on Ukraine. We are appalled by the aggressions that are brought upon Ukraine and the people of Ukraine by the Russian government.  

As members of the European publishing community, we strongly support the statement issued by the Federation of European Publishers. We stand in solidarity with the people of Ukraine and all of our fellow Ukrainian colleagues in publishing; with the authors, translators, booksellers, and librarians – also in their fight for the freedom to publish."

 

Jan21

Afhending Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2021

Höfundur Félag íslenskra bókaútgefenda

Afhending Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2021

Forseti Íslands, herra Guðni Th. Jóhannesson, afhenti í dag, þriðjudaginn 25. janúar, Íslensku bókmenntaverðlaunin 2021, við hátíðlega athöfn á Bessastöðum.

Íslensku bókmenntaverðlaunin nema einni milljón króna fyrir hvert verðlaunaverk og eru kostuð af Félagi íslenskra bókaútgefenda. Auk þess er verðlaunahöfum afhent skrautrituð verðlaunaskjöl og verðlaunagripir, hannaðir af Jóni Snorra Sigurðssyni á gullsmíðaverkstæði Jens; opin bók á granítstöpli með nafni verðlaunahöfundar og bókar hans.

Verðlaunin skiptust í þrjá flokka og þeir sem að þessu sinni hlutu verðlaunin voru:

Fræðibækur og rit almenns efnis:

Sigrún Helgadóttir fyrir bókina Sigurður Þórarinsson : Mynd af manni I-II. Útgefandi: Náttúruminjasafn Íslands

Umsögn lokadómnefndar:

Að baki ævisögu Sigurðar Þórarinssonar liggja fjölmörg viðtöl og áralöng heimildavinna Sigrúnar Helgadóttur í dagbókum, bréfum og gögnum um ævi mannsins sem varð andlit jarðvísinda og náttúruverndar hér á landi á 20. öld; eins konar frummynd hins lífsglaða íslenska náttúrufræðings með brennandi áhuga á sögu og menningu.

Í þessari lipru, aðgengilegu og skemmtilegu frásögn er fylgst með þróun íslensks samfélags í átt til nútímans; efnilega föðurlausa sveitadrengnum sem kemst til mennta með hjálp góðra karla og kvenna, næmur, listrænn og skemmtinn, jafnvígur á hug- og raunvísindi en kýs að leggja fyrir sig jarðfræði og verður forystumaður í þeirri grein hér á landi um leið og hann kemst í fremstu röð á heimsvísu. Höfundur heldur öllum þráðum þessa farsæla ferils í hendi sér, kryddar hann léttilega með fjörlegum frásögnum sem varpa skýru en um leið marglitu ljósi á Sigurð; lesandinn kemst í návígi við hann frá degi til dags en fær um leið góða tilfinningu fyrir þeirri miklu braut sem hann ryður með rannsóknum sínum og kennslu í jarðvísindum og ekki síður afskiptum af almennri náttúruvernd og stjórnmálum. Ljósmyndir Sigurðar sjálfs leika stórt hlutverk í því hve vel tekst til og ekki síður sú natni og hugmyndaauðgi sem liggur að baki umbrotinu á hverri opnu.

Áherslan er á þá helgun sem fylgdi opinberum störfum Sigurðar en verkinu lýkur á fallegri og afhjúpandi mynd af fjölskyldumanninum Sigurði sem var karl síns tíma með sterka konu, Ingu V. Backlund, sér að baki – og börn sem minnast þess að hafa helst náð að tala við pabba sinn þar sem hann sat við skrifborðið í stofunni heima. Sigrún hlífir Sigurði ekki, hún gerir grín og dáist að honum, en sýnir okkur jafnframt hvernig vísindamaður verður til og mótast af stóratburðum síðustu aldar, styrjöldum, jarðskjálftum, jökulhlaupum og eldgosum.

Barna- og ungmennabækur:

Þórunn Rakel Gylfadóttir fyrir bókina Akam, ég og Annika. Útgefandi: Angústúra

Umsögn lokadómnefndar:

Fyrsta skáldsaga Þórunnar Rakelar grípur lesandann strax. Hún er vel skrifuð, skemmtileg og spennandi allt til loka, höfðar bæði til unglinga og þeirra sem eldri eru. Galdurinn liggur í næmri persónusköpun og því hvernig sýn á einstaklinga í sömu fjölskyldu er byggð upp út frá sjónarhorni Hrafnhildar, unglingsstúlku fráskilinna foreldra.

Hrafnhildur flyst þvert gegn vilja sínum til Þýskalands með móður sinni og nýjum manni hennar. Lesandi fylgist með innri rödd unglingsins en sér hana jafnframt í þrúgandi spenntu sambandi við móður sína, sem einkennist af ákaflega trúverðugri og vel byggðri togstreitu á milli þess innra og ytra – þannig að úr verður heilsteypt og margbrotin lýsing á veruleika íslensks unglings. Sama listfengi og margræðni einkennir samskipti Hrafnhildar við gamla og nýja vini, af ólíkum kynjum, aldri og uppruna. Á öllum stigum er unnið með þversagnir í framkomu og lífi fólks, útlit og innri maður vegast á þannig að ekkert er einhlítt í því hvernig við skynjum umhverfi okkar. Allt er litað af fyrirframhugmyndum hvers konar; fullorðnir átta sig ekki á börnum sem eru sjálf ekki barnanna best þegar kemur að einelti, kúgun og ofbeldi. Inn í þessa vel heppnuðu persónusköpun er fléttuð fjölbreytt umræða um vald, spillingu, réttlæti og náttúruvernd, leitina að sannleikanum (sem getur orkað tvímælis líkt og í leikritum Ibsens) og fordóma sem tengjast þjóðerni, uppruna og trúarbrögðum. Þessi umræða fellur svo vel að sögunni að hún dregur ekki úr drifkraftinum eða forvitni lesandans að kynnast þeim sem eru leidd fram á sviðið og fá öll að njóta sín, hver á sínum forsendum.

Akam, ég og Annika er trúverðug og spennandi saga með eftirminnilegum persónum sem fanga ákveðinn kjarna í samskiptum fólks.

Skáldverk:

Hallgrímur Helgason fyrir bókina Sextíu kíló af kjaftshöggum. Útgefandi: JPV útgáfa

Umsögn lokadómnefndar:

Skáldsaga Hallgríms Helgasonar er stór í sniðum, kraftmikil og hugmyndarík, skrifuð af kjarnyrtum og frumlegum þrótti með skoplegri og ýktri sýn á harmræna atburði þar sem lífshættan og dauðinn bíða við hvert fótmál. Sögusviðið er upphaf síldarævintýrisins í litlu íslensku þorpi við ysta haf á fyrstu áratugum síðustu aldar og viðfangsefnið er fæðing nútímans í íslensku samfélagi, þegar erlendir athafnamenn og tækninýjungar bárust inn í kyrrstætt sveitasamfélagið sem sagan rekur um kynslóðirnar allt aftur úr harðbýlum torfhreysum á hjara veraldar inn í þá mannlífshringiðu sem skapaðist í kringum gróðavon og síldveiðar Norðmanna hér við land. Vinnuharka, grimmd og vægðarleysi eru dregin fram í daglegu basli fólks, ástum þess og örlögum.

Sjónarhornið er að mestu bundið við ungkarlinn Gest sem er leiksoppur ytri atburða en persónur eru engu að síður fjölbreyttar, af ólíkum uppruna og þjóðfélagsstigum, og teiknaðar skýrum en margradda dráttum þannig að þær birtast lesanda ljóslifandi og eftirminnilegar, hver með sín sérkenni. Breyskleiki þeirra og göfuglyndi blasa við, hið lága vellur fram með öllum líkamsvessum og sora á bak við síldartunnur, í myrkum torfskúmaskotum og dýpstu skipslest um leið og persónur njóta fagurra og forboðinna ásta, lista og menningar í betri stofum, og þeirra forréttinda og þæginda sem auður og friðsæld geta gefið.

Sagan er drifin áfram af tilfinningum og innri átökum Gests, ástum hans og fjölskylduharmi en bakgrunnurinn er sögulegir viðburðir og persónur sem minna á Siglufjörð. Sextíu kíló af kjaftshöggum er metnaðarfull skáldsaga sem tekst á við mannlega tilveru þar sem hlutskipti einstaklinga ræðst af uppruna og ytri aðstæðum í bland við gæfu og gjörvileik.

Jan20

Bókamarkaðurinn á Laugardalsvelli

Höfundur Félag íslenskra bókaútgefenda

24. febrúar - 13. mars 2022

Bókamarkaðurinn á Laugardalsvelli

Bókamarkaðurinn á Laugardalsvelli verður haldinn dagana 24. febrúar – 13. mars nk.

Tekið er á móti skráningu bóka á markaðinn á netfangið bryndis@fibut.is fram til 1. febrúar.

[12 3 4 5  >>